iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Léon_Walras
Léon Walras - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Léon Walras

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Léon Walras

Marie-Esprit-Léon Walras (16. desember 1834 – 5. janúar 1910) var franskur hagfræðingur sem talinn vera einn af upphafsmönnum jaðarbyltingarinnar. Hann þróaði aðferðir jaðargreiningar ásamt því að þróa almennu jafnvægiskenninguna um heildarjafnvægi eftirspurnar og framboðs. Þekktasta rit hans er er Éléments d'économie politique pure sem kom út árið 1871. Ásamt William Stanley Jevons og Carl Menger er Walras talinn einn upphafsmanna jaðarbyltingarinnar og nýklassískrar hagfræði.

Gröf Walras og dóttur hans Marie Aline (1869-1942) við kirkjugarðinn í Clarens í svissnesku kantónunni Vaud.

Walras fæddist árið 1834 í Évreux í Frakklandi. Hann var sonur Auguste Walras, sem var franskur hagfræðingur og kennari. Eftir eitt ár sem námsmaður við École des mines, þá hóf Walras störf við blaðamennsku og sem skáldsagnahöfundur og listgagnrýnandi. Seinna fetaði hann í fótspor föður síns og tryggði sér að stöðu sem prófessor í stjórnmálahagfræði við Lausanne háskóla í Sviss árið 1870.[1] Þessi staðsetning var ekki tilvalin í ljósi þess að ráðandi hugmyndafræði í hagfræði á þeim tíma var í Bretlandi, og var því erfitt fyrir Walras að hafa mikil áhrif á ríkjandi hagkenningar þar sem hugmyndafræðin hans var öll á frönsku.[2]

Hagfræðilegar kenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1874 gaf Léon Walras út bók að nafninu Éléments d'économie politique pure. Þar setti hann fram eitt af meginhugtökum nýklassískrar hagfræði, almennu jafnvægiskenninguna (e. General equilibrium theory). Markmið Walras var að leysa vandamál Antoine Augustin Cournot. Cournot gat útskýrt hegðun einstakra markaða, en hann útskýrði ekki hvernig verð ólikrar vörur hafði áhrif á aðrar, og þá hvernig framboð og eftirspurn á mörgum mörkuðum spilar saman.[3]

Í almennu jafnvægiskenningunni er hagkerfi táknað með kerfi jafna, markaðsverð er gefin stærð og markmiðið er að rannsaka virkni hagkerfisins með tilliti til þeirra aðstæðna sem leiða til og viðhalda jafnvægi innan hagkerfisins. Í þessu hagkerfi eru aðeins tvær vörur sem hægt var að stunda viðskipti með, kallaðar x og y. Allir í einstaklingar í hagkerfinu eru kaupendur á annari vörunni og seljandi hinnar. Samkvæmt þessu ímyndaða markaðskerfi er framboð og eftirspurn háð hvort öðru, því neysla hverrar vöru er háð laununum við sölu hverrar vöru. Vöruverð yrði síðan ákvarðað með ferli sem Walras kallaði tâtonnement. Tâtonnement er ferli þar sem verð á vöru er gefið út og fólk á markaðnum segir hversu mikið af hverri vöru þau vilja kaupa eða selja. Fyrir vörur sem eru of hátt verðlagðar fara engin viðskipti eða framleiðsla fram. Seljandi myndi þá aðlaga sitt vöruverð eftir eftirspurn sem leiðir til jafnvægisverðs. [4] Kenningin segir því að ef það er jákvæð umframeftirspurn á einum markaði þá hlýtur að vera neikvæð umframeftirspurn á öðrum. Það veldur því að þar sem umframeftirspurn er, mun ósýnilega hönd markaðaðsins hækka verð en þar sem umframframboð er, mun ósýnilega hönd markaðsins lækka verð fyrir neytendur til þess að markaðurinn nái jafnvægi.[3]

Margir hagfræðingar voru ókunnugir kenningum Walras vegna þess að flest rit hans voru aðeins fáanleg á frönsku. Með útgáfu enskrar þýðingar William Jaffé á Walras 'Éléments d'économie politique pure árið 1954 breyttist þetta. Kenningar Walras náðu þá að festa sig í sessi í þeim hagfræðikenningum sem við þekkjum í dag.[5]

  1. Walker, Donald A., “Walras, Léon,” The New Palgrave: A Dictionary of Economics, Vol. 4 (Q to Z), John Eatwell et al., eds. (Macmillan Press, 1987), pp. 852–863.
  2. Britannica, T. Editors of Encyclopaedia (2021, January 1). Léon Walras. Encyclopedia Britannica. https://www.britannica.com/biography/Leon-Walras
  3. 3,0 3,1 „Léon Walras - New World Encyclopedia“. www.newworldencyclopedia.org. Sótt 17. september 2021.
  4. H. Uzawa, Walras' Tâtonnement in the Theory of Exchange, The Review of Economic Studies, Volume 27, Issue 3, June 1960, Pages 182–194, https://doi.org/10.2307/2296080
  5. „Léon Walras“, Wikipedia (enska), 17. september 2021, sótt 17. september 2021