iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Krikket
Krikket - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Krikket

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krikketleikur í gangi.

Krikket er hópleikur sem leikinn er af tveimur liðum í einu sem samanstanda af ellefu leikmönnum hvort. Leikurinn kemur upphaflega frá Englandi og er einkum vinsæll í löndum Breska samveldisins. Krikket er vinsælasta íþróttin í mörgum löndum Suður-Asíu, þ.á m. Indlandi, Pakistan, Bangladesh og Sri Lanka.

Hver krikketleikur getur tekið frá sex tímum til 5 eða 6 daga, með viðeigandi tepásum. Leikurinn byggir á 42 reglum sem Marylebone Krikketklúbburinn hefur þróað ásamt helstu krikketþjóðunum. Lið geta samþykkt að breyta reglunum í ákveðnum leikjum eða við ákveðnar aðstæður. Slíkar breytingar felast einkum í leikuppbyggingu og staðsetningu á leikvanginum.


Krikket er spilað á stórum grasbala. Á miðjum vellinum er moldarflag um 20 m langt og við hvorn enda þess báðum megin eru þrír staurar sem tengdir eru saman með snúðum. Í kringum völlinn er vallarband. Leikurinn skiptist í umferðir og í hverri umferð er annað liðið í sókn en hitt í vörn. Tveir leikmenn sóknarliðs (svonefndir kylfar) eru inn á vellinum í einu og lemja boltann eins og þeir get, þeir hafa legghlífar, hjálma og hanska og kylfu sem er flöt að framan. Þegar þeir hafa slegið boltann hlaupa þeir milli stauranna. Í varnarliðinu eru oftast fjórir eða fimm varparar en það eru leikmenn sem eru góðir í að varpa bolta til kylfanna en í krikket má ekki kasta boltanum heldur verður að varpa honum. Hver varpari má aðeins varpa einni lotu í einu en ein lota er sex köst.

Markmið leiksins

[breyta | breyta frumkóða]

Krikket er leikinn með kylfu og bolta og markmið leiksins er að skora fleiri stig (runs) en andstæðingurinn.

Hverjum leik er skipt í lotur. Meðan á lotu stendur slær annað liðið á meðan hitt kastar boltanum og hleypur á milli hafna.

Það lið sem kastar reynir að lágmarka stig andstæðingsins og á sama tíma að losna við leikmenn þess. Sérhver leikmaður slær þangað til hann er úr leik. Leikmaður sem er úr leik má ekki taka þátt í yfirstandandi lotu aftur. Það lið sem slær hefur alltaf tvo leikmenn inni á vellinum. Þegar 10 af 11 leikmönnum liðsins eru þannig úr leik má liðið ekki gera og lota þess því liðin. Fyrirliði liðsins getur einnig bundið enda á lotu liðsins.

Krikket á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Krikketíþróttin hefur ekki átt miklum vinsældum að fagna á Íslandi, en hefur þó verið iðkuð hér lítilega. Erfitt er að segja með fullri vissu hvenær krikket var fyrst spilað hér á landi. Í heimildum um íþróttaiðkun heldra fólks í Reykjavík og á Akureyri um og fyrir aldamótin 1900 er getið um knattleik, sem hugsanlegt má telja að hafi verið krikket. Raunar má víða finna frásagnir af keppni í krikket hérlendis alla tuttugustu öldina, en að öllum líkindum er þar um misskilning að ræða þar sem nafnið krikket er oft ranglega notað um íþróttina croquet, þar sem keppendur slá kúlur í gegnum lítil hlið með hjálp tréhamra.

Nokkuð hefur verið um að fólk af erlendu bergi brotið hafi reynt að stunda krikket hér á landi. Má þar nefna starfsfólk breska sendiráðsins og í seinni tíð nýbúa af asískum uppruna, s.s. Indverja, Pakistana og fólk frá Sri Lanka. Innfæddir Íslendingar hafa sömuleiðis reynt sig við þessa erfiðu íþrótt. Í kringum árið 2000 voru stofnuð krikketfélög bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi. Kepptu þau sín á milli um óopinbera Íslandsmeistaratign í greininni.

Á vegum íslensku krikketfélaganna hafa komið hingað til lands nokkur bresk keppnislið í krikket og hafa heimsóknir þeirra stundum hlotið nokkra umfjöllun erlendra fjölmiðla. Þannig sagði íþróttastöðin Eurosport frá komu hóps Breta til Íslands sem léku krikket við heimamenn að næturlagi í íslensku miðnætursólinni og á jökli, en hvort tveggja var talið einstakt í krikketsögunni. Evrópska krikketsambandið hefur sömuleiðis stutt með ráðum og dáð við bakið á íslenskum krikketiðkendum, meðal annars með veglegum gjöfum á keppnisbúnaði og með því að senda sérfróðan krikketkennara til að leiðbeina börnum í Stykkishólmi.

Veðrátta er þó tvímælalaust það sem háir krikketiðkun á Íslandi hvað helst, því krikket verður ekki með góðu móti spilað í vindi eða votviðri.