iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Jaðarrokk
Jaðarrokk - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Jaðarrokk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hljómsveitin Nirvana var gott dæmi um framsækna grugghljómsveit sem flutti öðruvísi rokk

Jaðarrokk (einnig öðruvísi rokk eða óháð rokk, enska: alternative rock) er tónlistarstefna sem þróaðist út frá neðanjarðarsenunni snemma á níunda áratug síðustu aldar. Stefnan á mjög oft við um listamenn sem náðu meginstraums vinsældum þrátt fyrir að hafa verið partur af neðanjarðarsenunni lengi.[1]

Jaðarrokk varð þó ekki vinsælt fyrr en snemma á tíunda áratugnum í kjölfarið af velgengni hljómsveita eins og Nirvana, Alice in Chains og The Smashing Pumpkins. Á þeim tíma einkenndist stefnan mikið af trufluðum djúpum gítartónum, dynjandi bassalínum, þéttum trommum og yfirleitt nokkuð þungbærum söng, svo ekki sé minnst á það hve þung umfjöllunarefni laganna voru oftast nær. Jaðarrokk er þó virkilega víð skilgreining á tónlist. Það er í raun regnhlífarhugtak yfir allt sem passar ekki inni í aðrar stefnur, allt frá háværu, pönkuðu gruggi yfir í léttvægt sjálfstætt rokk nærri-því popp.[2]

Dæmigerð hljóðfæri eru rafmangsgítar, rafmangsbassi, trommur, söngur og stundum hljómborð.

Í jaðarrokki má gæta áhrifa aðallega frá nýbylgjutónlist, bresku pönkstefnu áttunda áratugarins, síð-pönki og harðkjarnapönki.[3] Einnig má sjá áhrif frá hljómsveitum eins og The Velvet Underground og The Silver Apples sem tróndu á toppnum á sjöunda áratug síðustu aldar.[2]

Merking orðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflega var jaðarrokk nafn yfir stefnuna sem þeir listamenn eða hljómsveitir sem voru ekki partur af meginstraumi tónlistarheimsins fluttu. Annað hvort voru þessar sveitir ekki með samning eða með samning við sjálfstætt starfandi plötufyrirtæki (e. independent record label).[4] Þaðan kemur heitið „indie“, Bretar kölluðu jaðarrokk „indie“ en Bandaríkjamenn „alternative“. Orðið „alternative“ er enn við lýði og er víðasta skilgreiningin á jaðarrokki. En „indie“ er hins vegar nú á dögum orðið að heiti á mun þrengra skilgreindri stefnu sem heyrir undir jaðarrokk og byggist í raun á sömu grunnhugmyndafræði og jaðarrokk gerði upphaflega. Að vera sjálfstæður og óháður, af því dregst nafnið sjálfstætt rokk.[5]

Saga og áhrifavaldar

[breyta | breyta frumkóða]

Tónlistarlega séð má glögglega sjá að mikil áhrif má rekja aftur til síðari hluta sjöunda áratugarins. Hljómsveitir eins og Velvet Underground og Iggy and the Stooges hafa án efa haft sitt að segja um hljóm jaðarrokksins í heild sinni. Þessar hljómsveitir, sem og fleiri voru jaðar tónlistarmenn síns tíma þó að ekki hafi enn verið búið að finna nafn á stefnuna sem þessar hljómsveitir þykja almennt tilheyra nú til dags. Tónlistarmenn áttunda áratugarins voru mjög duglegir að þróa þessa tegund tónlistar aðeins lengra. Meðal þeirra má nefna T-Rex, David Bowie, Kraftwerk og New York Dolls. Tvímælalaust má hinsvegar segja að pönkið í lok sama áratugar hafi átt mestan þátt í að færa stefnuna í réttan farveg.[2]

Bandarísku plötufyrirtækin SST Records, Twin/Tone Records, Touch & Go Record og Dischord records voru aðal drifkraftarnir á bak við það að færa jaðarrokksenuna úr harðkjarna pönkinu og meira yfir í rokk undir lok áratugarins. Hljómsveitir voru hægt og hægt að brjótast út úr uppskriftum sinnar skilgreindu stefnu og fóru að prófa sig áfram. Meðal þeirra má nefna helstu áhrifavalda þessa tíma The Replacements og Hüsker Dü. Báðar þessar hljómsveitir hófu feril sinn undir stefnunni pönk rokk en færðu sig svo hægt og rólega yfir í melódískari hljóm sem síðar meir átti eftir að vera einkennandi fyrir pop pönk. Þó að listamenn stefnunnar á þessum tiltekna áratug hafi ekki endilega selt plötur í trukkahlössum höfðu þeir töluverð áhrif á flest alla þá rokk tónlist sem eftir á kom og sköpuðu grunninn fyrir komandi kynslóð tónlistarmanna[3]

Nútíma jaðarrokk

[breyta | breyta frumkóða]

Jaðarrokk í sinni nútímamynd er talið hafa komið fyrst fram á sjónarsviðið á níunda áratugnum þar sem umbylting varð í tónlist á formi svokallaðra háskóla útvarpsstöðva. Nemendur sáu alfarið um að velja efni og senda það út. DJ-ar háskólastöðvanna voru þekktir fyrir að taka ástfóstri við neðanjarðartónlist sem þeir uppgötvuðu oftast nær í litlum klúbbum, og áttu þar með virkilega stóran þátt í velgengni margra tónlistarmanna sem var ákaflega mikiðvægt fyrir það sem eftir kom.

Stöðvarnar spiluðu mikið af hljómsveitum eins og Pixies, Dinosaur Jr., Throwing Muses og einnig efni eftir erlenda tónlistarmenn og þá aðallega Breta.[3] Vegna þessa sess stöðvanna í skólalífi nemanda hlaut stefnan viðeigandi nafnið háskólarokk (e. college rock). Háskólarokkhefur þó, rétt eins og sjálfstætt rokk, þróast út í að vera ein af undirstefnum jaðarrokksins og hefur yfirleitt talsvert poppaðari tón en upprunalega var. Í lok áratugarins var jaðarrokk eða, eins og það hét á þessum tíma, háskólarokk orðið töluvert sýnilegra í meginstraums tónlist og höfðu nokkrar hljómsveitir eins og t.d. R.E.M, Jane’s Addiction og fleiri komist á samning hjá stórum plötufyrirtækjum.

Jaðarrokkið á líka MTV mikið að þakka, en þátturinn 120 Minutes sem var sýndur var seint á níunda áratugnum hjálpaði neðanjarðartónlist að auka vinsældir sínar.[3]

Hápunktur jaðarrokks

[breyta | breyta frumkóða]

Tíundi áratugur seinustu aldar var samt án efa áratugur jaðarrokksins. Hljómsveitir eins og Nirvana, The Smashing Pumpkins, Alice in Chains og Sonic Youth réðu ríkjum á fyrri hluta áratugarins. Gruggið varð skyndilega aðal málið eftir útkomur platnanna Nevermind með Nirvana, Ten með Pearl Jam og Badmotorfinger með Soundgarden árið 1991.[1] Plötufyrirtæki stukku til og fóru að slást um grugg- og jaðarrokkara, útvarpsstöðvar fóru að spila rokk í mun meira mæli en áður.[2]

Hið hefðbundna jaðarrokk var örlítið í farþegasætinu þegar að grugginu kom en náði engu að síður einnig gríðarlegum vinsældum. Hliðargreinarnar sem sprungu út frá stefnunni voru óteljandi og margar hljómsveitir prófuðu sig áfram í mörgum þeirra, frekar en að halda sig bara við eina. Meðal þeirra hljómsveita má helst nefna The Smashing Pumpkins. Red Hot Chili Peppers og Radiohead.[1] Um miðbik áratugarins, í kjörfarið af sjokkerandi sjálfsvígi Kurt Cobain, forsprakka Nirvana, dvínuðu vinsældir jaðarrokksins og flestra undirstefna hennar all svakalega og gellupopp tók við kyndlinum sem vinsælasta stefnan. Eftir þetta áfall virtust flestar hljómsveitir missa móðinn og hættu ýmist eða fóru í pásu á nokkurra ára skeiði þar á eftir.[3]

T.d. Nirvana vegna sjálfsvígs Kurt Cobain. Trommari Nirvana, Dave Grohl gafst þó ekki upp á tónlistinni og stofnaði hljómsveitina Foo Fighters sem er enn þann dag í dag eins vinsælasta hljómsveit jaðarrokksins.[6] The Smashing Pumpkins hættu í sinni upprunalegu mynd árið 1999 vegna ótrúlegs ósættis og leiðinda innbyrðis, sem náðu þó að gera eina af áhrifaríkustu plötum sínum Adore (1998) áður en bassaleikarinn, D’arcy Wretzky, yfirgaf sveitina endanlega.[7] Aðrar hljómsveitir sem hlutu sömu örlög eru t.d. Soundgarden, Alice in Chains, Rage Against the Machine og Hole.[3]

Vinsælar undirstefnur

[breyta | breyta frumkóða]

Grugg (e. grunge) var tvímælalaust ríkjandi undirstefna jaðarrokksins á tíunda áratugnum í Bandaríkjunum Það kom fyrst fram snemma á níunda áratugnum í Seattle. Sú borg var virkilega einangruð, tónlistarlega séð. Lítið var um að hljómsveitir kæmu við það á tónleikaferðalögum og olli það því að Seattle búar voru sér á báti og smátt og smátt þróaðist stefna sem var staðbundin við þessa einu borg.[8]

Hljómsveitirnar sem þróuðu hljóminn voru t.d. Green River, Mudhoney og Soundgarden. Þær sveitir, þessar upprunalegu grugg, voru mun harðari en þær sem síðar komu. Nirvana, Stone Temple Pilots og Pearl Jam voru meðal þeirra síðarnefndu. Tónlistin þeirra var töluvert melódískari og auðveldari í hlustun.[8] Þessir eiginleikar hafa eflaust orðið til þess að gruggið varð jafn stórt og raun ber vitni. Nirvana voru vafalaust konungarnir, þar sem önnur plata þeirra, Nevermind (1991) er oft talin hafa verið ábyrg fyrir því að koma stefnunni inn í meginstrauminn.

Stefnan var í heild sinni virkilega öðruvísi rokk, ákaflega skítug, sóðaleg og kærulaus. Gruggið dró innblástur sinn frá þungarokki og pönki. Gítarlínurnar voru leiddar beint út frá metal sjötta áratugarins en flest allt annað var fengið frá pönki, það er söngstíllinn og oft takturinn. Hljómsveitir eins og The Stooges og Black Sabbath eru oft taldar eiga stóran þátt í að mynda afgerandi hljóm gruggsins.[9]

Britpop er eiginlega akkúrat hinum megin á skalanum við grugg, tónlistarlega séð, en var engu að síður vinsæl undirstefna jaðarrokksins á sama tíma, nema bara í Bretlandi. Britpop var, og er enn þann dag í dag, virkilega innblásið af The Beatles, The Kinks og öðrum hljómsveitum úr Bresku innrásinni, sem og glysrokki og pönk-rokki.[10] Britpop er mjög melódísk stefna, einkennist mikið af ákveðnum gítarlínum og léttvægum takti og oftar en ekki breskum hreim.

Britpop átti upphaf sitt í Bretlandi, í kringum Camden svæðið í London, snemma á tíunda áratugnum, á sama tíma og Nirvana voru að skjótast upp á stjörnuhimininn. Stefnan var upp á sitt besta um miðbik tíunda áratugarins, eða um það leyti sem Kurt Cobain féll fyrir eigin hendi.[10]

Tvær hljómsveitir eru oftast nefndar í kringum stefnuna, Blur og Oasis. Blur, leidd af Damon Albarn, var stofnuð árið 1989, tvemur árum á undan Oasis sem er nú á dögum frekar þekkt fyrir stormasamt samband bræðranna Liam og Noel Gallagher, fremur en tónlistarlegs framlags. Þessar tvær sveitir áttu eftir að móta breska rokksögu einungis nokkrum árum síðar í britpopstríðinu fræga, þar sem þessar tvær hljómsveitir áttu eftir að skipta öllu Bretlandi í tvennt um miðlínuna. Blur átti sinn heimavöll sunnan við en Oasis fyrir norðan.[11]

Tískan í kringum jaðarrokkið varð mjög afgerandi á tíunda áratugnum, það snerist mikið um að hafna litríkri og útpældri tísku þess níunda. Pönktískan frá áttunda áratugnum var mikið endurnýtt. Rifnar gallabuxur, leðurjakkar, skítugir stuttermabolir, afbrigðilega litað hár og lítil umhirða skeggs urðu vinsæl. Líkamsgatanir og húðflúr urðu einnig algengari meðal almennings.[12]

Tískufyrirmyndir kvenna voru einna helst:

  • D'arcy Wretzky, bassaleikari The Smashing Pumpkins, þekkt fyrir aflitað hár sitt, risastórt safn sólgleraugna og of-stórra peysa.
  • Courtney Love forsprakki hljómsveitarinnar Hole, barnsmóðir og eiginkona Kurt Cobain, þekkt fyrir ótrúlega subbulegan stíl sem einkenndist af ofhlaðningu skartgripa og rifnum fötum.
  • Shirley Manson, söngkona Garbage þekkt fyrir ákaflega stutt pils, sterkan augnfarða og drápshæla.

Hljómsveitir sem spila öðruvísi rokk

[breyta | breyta frumkóða]

Listinn er raðaður eftir áratugum og alls ekki tæmandi.

1980–1990

[breyta | breyta frumkóða]

1990–2000

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenskar hljómsveitir sem spila öðruvísi rokk

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Alternative Rock Music (2007)
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 History of Alternative Rock Music (2003)
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Alternative Rock (2008)
  4. Rogers (2007)
  5. Carew (2012)
  6. Dave Grohl (2012)
  7. History (of the Band) (2006)
  8. 8,0 8,1 Grunge Music History (2003)
  9. Explore: Grunge (2012)
  10. 10,0 10,1 Explore: Britpop (2012)
  11. Gerber (2010)
  12. 90s Fashion Secrets (2012)
  • „90s Fashion Secrets“. Fashionbloglife. 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2012. Sótt 7. mars 2012.
  • „Alternative Rock“. New World Encyclopedia. 2. Apríl 2008. Sótt 10. mars 2012.
  • „Alternative Rock“. Planet Radio City. 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. mars 2012. Sótt 8. mars 2012.
  • „Alternative Rock Music“. Rockmusic. 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. mars 2012. Sótt 10. mars 2012.
  • Carew, Anthony (2012). „Alternative Music 101 - Are 'Alternative' and 'Indie' the Same Thing?“. Altmusic. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. maí 2013. Sótt 10. mars 2012.
  • „Dave Grohl“. Nirvana Wiki. 2012. Sótt 10. mars 2012.
  • „Explore: Britpop“. AllMusic. 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. maí 2012. Sótt 10. mars 2012.
  • „Explore: Grunge“. AllMusic. 2012. Sótt 10. mars 2012.
  • Gerber, Justin (5. mars 2010). "The Battle of Britpop" - Revisited“. Consequence of Sound. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. mars 2013. Sótt 10. mars 2012.
  • „Grunge Music History“. Silver Dragon Records. 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. ágúst 2007. Sótt 10. mars 2012.
  • „History of Alternative Rock Music“. Silver Dragon Records. 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. apríl 2012. Sótt 8. mars 2012.
  • „History (of the Band)“. Netphoria. 2006. Sótt 11. mars 2012.
  • Rogers, Jude (8. júlí 2007). „Smells like indie spirit“. The Guardian. Sótt 9. mars 2012.