iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Fiskarnir_(stjörnumerki)
Fiskarnir (stjörnumerki) - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Fiskarnir (stjörnumerki)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Myndin er úr Urania's Mirror (1824)

Fiskarnir er stórt en fremur dauft stjörnumerki á norðurhveli himins. Það liggur á milli Vatnsberans í vestri og Hrútsins í austri. Stjörnumerkið á sér langa sögu og er í hópi þeirra 48 stjörnumerkja sem gríski stjörnufræðingurinn Ptólmæos lýsti í riti sínu Almagest frá 2. öld e.Kr. Merkið státar ekki af neinni bjartri eða nafntogaðri stjörnu en hefur margt sér til ágætis að öðru leyti.

Sólbrautin eða sólbaugurinn liggur í gegn um Fiskana. Þeir eru því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Fiskanna frá 11. mars til 18. apríl. Fiskamerkið teygir sig suður fyrir miðbaug. Vorpunktur himins er í stjörnumerkinu en það er sá staður þar sem sólin sker miðbaug himins þegar hún gengur til norðurs. Hann markar vorjafndægur.

Þar sem Fiskarnir eru að langmestu leyti fyrir ofan miðbaug himins sjást þeir vel að kvöldlagi frá Íslandi stærstan hluta vetrar (frá september fram í febrúar).

Tákn Fiskamerkisins er tveir fiskar sem synda hvor í sína áttina, en eru eigi að síður tengdir saman með bandi. Táknmynd þess er ♓.

Stjörnuspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Fiskarnir spanna tímabilið 19. febrúar til 20. mars. Samkvæmt stjörnufræðivef Gunnlaugs Guðmundssonar er sá sem fæddur er í Fiskamerkinu, fiskurinn, mikil tilfinningavera í eðli sínu. Hann er fæddur í breytilegu vatnsmerki og getur því tjáð sig á margslunginn hátt. Fiskamerkið er síðasta merkið í dýrahringnum og um fiskinn er oft sagt að hann hafi öll önnur merki fólgin í skapgerð sinni. Fiskurinn er því oftast bæði víðsýnn og margbrotinn, á auðvelt með að skilja ólíkt fólk og setja sig í annarra spor. Hann hefur mikla aðlögunarhæfni og ræður einnig miklu um eigið líf. Hann er stórhuga og oft fjölhæfur, en getur átt erfitt með að takmarka sig og einbeita sér.