iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Epikúros
Epikúros - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Epikúros

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Epikúros
Epikúros
Persónulegar upplýsingar
Fæddur341 f.Kr.
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilFornaldarheimspeki
Skóli/hefðEindahyggja, epikúrismi
Helstu ritverkUm eðlið (ekki varðveitt nema í brotum)
Helstu kenningarUm eðlið (ekki varðveitt nema í brotum)
Helstu viðfangsefnisiðfræði, frumspeki, þekkingarfræði

Epikúros (341 f.Kr. á eynni Samos í Grikklandi270 f.Kr. í Aþenu í Grikklandi) (gríska: Ἐπίκουρος) var grískur heimspekingur og upphafsmaður epikúrismans, einnar vinsælustu heimspekistefnunnar á helleníska tímanum.

Foreldrar Epikúrosar voru Neókles og Kærestrate. Þau voru bæði aþenskir borgarar en fluttust til aþensku nýlendunnar á eynni Samos í Eyjahafinu. Samkvæmt Apollodóros (að sögn sagnaritarans Díogenesar Laertíosar, sjá X.14-15) fæddist hann á sjöunda degi gamelíonmánaðar á þriðja ári 109. ólympíutíðar, þegar Sósígenes var arkon (þ.e. í febrúar árið 341 f.Kr.). Hann sneri aftur til Aþenu átján ára gamall til þess að hljóta herþjálfun.

Hann dvaldi með föður sínum í Kólofon eftir að Perídikkas hafði rekið aþensku nýlendubúana burt frá Samos vegna uppreisnar þeirra í kjölfar andláts Alexanders mikla (u.þ.b. 320 f.Kr.). Hann varði næstu árum í Kólofon, Lampsakos, og Mýtilene, þar sem hann stofnaði skóla 32 ára að aldri og hóf að laða til sín nemendur. Í arkonstíð Anaxíkratesar (307-306 f.Kr.) sneri hann á ný aftur til Aþenu þar sem hann stofnaði skólann sem varð þekktur undir nafninu Garðurinn, en skólinn dró nafn sitt af garðinum þar sem kennslan fór fram, u.þ.b. miðja vegu milli súlnaganganna Stoa poikile og Akademíunnar, skólans sem Platon hafði stofnað.

Epikúros lést á öðru ári 127. ólympíutíðar, er Pýþaratos var arkon, þá 72 ára gamall.

Skóli Epikúrosar

[breyta | breyta frumkóða]

Í skóla Epikúrosar voru fáir en dyggir nemendur og fylgismenn Epikúrosar meðan hann lifði. Helstu fylgjendur hans voru Hermarkos, Idomeneifur frá Lampsakos sem fjármagnaði skólann, Leonteifur og Þemista, kona hans, satíristinn Kolotes, stærðfræðingurinn Polýænos frá Lampsakos og Metrodóros, sem átti mikinn þátt í að auka vinsældir kenninga Epikúrosar. Skólinn var upphaflega í bakgarði Epikúrosar. Seneca segir í tuttugasta og fyrsta bréfi sínu að á áletrun á hliðinu að garðinum hafi staðið:

Aðkomumaður, hér er gott fyrir þig að hvílast; hér er ánægja æðst gæða.

Epikúros leyfði konum og þrælum að taka þátt í skóla sínum.

Vinsældir skólans jukust og hann varð ásamt stóuspeki og efahyggju einn þriggja meginskóla heimspekinnar á hellenískum tíma og hann hélt velli fram á keisaratímann í Róm. Í Róm var skáldið Títus Lúcretíus Carus helsti málsvari stefnunnar. Hann samdi kvæðið Um eðli hlutanna (De rerum natura), epískt ljóð í sex bókum, sem var ætlað að auka vinsældir stefnunnar og laða að nýja fylgjendur. Kvæðið fjallar einkum um náttúruspeki epikúrismans. Rómverski stjórnmálamaðurinn og heimspekingurinn Cíceró var önnur mikilvæg heimild um epikúrisma, enda þótt hann sé afar gagnrýninn á epikúrismann. Díogenes frá Önóanda er einnig mikilvæg heimild.

Í bænum Herculaneum hefur bókasafn, sem tengdafaðir Júlíusar Caesars, Lucius Calpurnius Piso Caesoninus, átti og hefur verið nefnt Papýusbúgarðurinn, varðveist undir öskulagi frá eldgosinu í Vesúvíusi árið 79. Þar hafa fundist mörg verk eftir Fílódemos, epikúring sem var uppi seint á hellenískum tíma, og brot verka Epikúrosar sjálfs, sem bera vitni um varandi vinsældir skólans. Enn er unnið að því að ráða í og ritstýra þeim texta sem þar hafa fundist.

Eftir að Constantinus fyrsti gerði kristni að ríkistrú Rómaveldis féll epikúrisminn í ónáð. Kenning Epikúrosar um að guðirnir létu sig mannleg mál ekki varða hafði ávallt rekist á við hugmyndir abrahamískra trúarbragða um guð. Guð og kenningar heimspekinnar voru í grundvallaratriðum ósamrýmanlegar. Sem dæmi um þetta má nefna að í talmúdískum bókmenntum er orðið fyrir villutrúarmann „apikouros“. Skólinn gekk í gegnum langt tímabil hnignunar og óvinsælda. Hins vegar lífguðu vísindamenn upp á eindahyggjuna á 18. og 19. öld. Seint á 20. öld gekk epikúrisminn sjálfur í endurnýjun lífdaga.

Kenningar Epikúrosar voru frábrugðnar kenningum annarra grískra hugsuða tímabilsins og voru einnig frábrugðnar kenningum eldri spekinga en byggðu eigi að síður á mörgum atriðum í heimspeki Demókrítosar. Líkt og Demókrítos var Epikúros eindahyggjumaður og trúði að heimurinn væri á endanum myndaður úr örsmáum efnislegum eindum sem voru nefnd ódeili (atóm) og sem flugu í gegnum tómarúm. Allt sem gerist er afleiðing af árekstrum ódeilanna, sameiningu þeirra þegar þær loða hver við aðra án tilgangs eða markmiðs með hreyfingu þeirra.

Í þekkingarfræði lagði Epikúros lagði áherslu á skynjun og skynreynslu. Lúcretíus segir að hann hafi verið einn af fyrstu grísku hugsuðunum sem braust undan guðsótta og guðsdýrkun, sem var algeng á hans tíma, en Epikúros játaði jafnframt að trúarlegar athafnir væru gagnlegar sem leið til íhugunar um guðina og til þess að nota þá sem dæmi um hið ánægjulega líf.

Heimspeki Epikúrosar byggir á þeirri kenningu að öll gæði og allt böl séu afleiðingar skynjunar. Ánægjulegar skynjanir eru góðar. Sársaukafullar skynjanir eru slæmar. Þótt Epikúros hafi oft verið misskilinn og talinn hafa mælt fyrir hóflausum eltingaleik við ánægju var kenning hans þó sú að hin æðstu gæði séu fólgin í lausn undan sársauka (jafnt líkamlegum sársauka sem andlegum).

Þótt Epikúros hafi talið gott að leitast við að vera ánægður var hann þó ekki nautnahyggjumaður í nútímaskilningi. Hann varaði við því að eltast óhóflega við ánægju vegna þess að slíkt leiðir oft til sársauka. Til dæmis varaði Epikúros við því að eltast of ákaflega við ástina þar eð slíkt leiðir oft til óróleika og sársauka. Rökin mætti ef til vill nefna „timburmannarökin“. Að eiga sér góða vini sem maður getur reitt sig á er hins vegar eitt mikilvægasta atriðið í ánægjulegu lífi.

Epikúros trúði því einnig (andstætt Aristótelesi) að dauðinn væri ekki slæmur. Samkvæmt kenningu Epikúrosar eru gæði og böl (í formi ánægju og sársauka) afleiðingar af skynjunum okkar. Án skynjunar er ekkert böl. Þegar maður er á lífi finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er ekki dauður. Þegar maður deyr finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er dauður og þar sem dauði er tortíming getur hann ekki skynjað neitt lengur. Þar af leiðandi segir Epikúros að „dauðinn er okkur ekkert“.

Andsætt stóumönnum sýndu epikúringar stjórnmálaþáttöku engan áhuga, enda töldu þeir slíkt einungis leiða til áhyggja og óróleika. „Lifðu lífinu í einangrun!“ var ráð Epikúrosar. Líkja má garði hans við kommúnur nútímans. Margir hafa leitað hælis frá skarkala samfélagsins með því að einangra sig frá samfélaginu.

Ein þekktasta kennisetning epikúrismans, sem lýsir epikúrismanum í hnotskurn er λάθε βιώσας eða laþe biōsas (Plútarkos De latenter vivendo 1128c; Flavius Philostratus Vita Apollonii 8.28.12), sem merkir „lifðu í laumi“, þ.e. komdu þér í gegnum lífið án þess að draga athygli að sjálfum þér, lifðu lífinu án þess að leita dýrðar, auðs eða valda, án frægðar og njóttu litlu hlutanna, eins og matar og vinskapar o.s.frv.

Ýmis atriði úr heimspeki Epikúrosar hafa gengið aftur eða dúkkað upp hjá ýmsum hugsuðum og heimspekistefnum í sögu Vesturlanda. Bölsvandinn (sem er stundum nefndur þverstæða Epikúrosar er fræg rök gegn tilvist guðs.

Epikúros var einn af fyrstu heimspekingunum sem útskýrði réttlætishugtakið á grundvelli samfélagssáttmála. Hann skilgreindi réttlæti sem samkomulag um að „valda ekki skaða og verða ekki fyrir skaða“. Tilgangurinn með því að búa í samfélagi með öðrum þar sem lög gilda og refsing er við lagabrotum er sá að vernda borgarana frá skaða svo að maður sé frjáls til þess að leita hamingjunnar. Af þessum sökum eru lög, sem leggja mönnum ekki lið til þess að leita hamingjunnar, ranglát.

Lýðræðislegir hugsuðir frönsku byltingarinnar tóku þessa hugmynd upp síðar og aðrir, líkt og John Locke, sem skrifaði að fólk ætti rétt á „lífi, frelsi, og eignum“. Locke taldi að líkami manns væri eign manns og því myndi eignarréttur manns tryggja öryggi manns sjálfs jafnt sem eigna manns.

Þessi hugsun lifði áfram í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna af stofnfeðrum Bandaríkjanna svo sem Thomas Jefferson sem skrifaði að menn ættu rétt á „lífi, frelsi og að leita hamingjunnar“.

Epikúros var einnig mikilvægur innblástur fyrir Friedrich Nietzsche. Nietzsche getur um mætur sínar á Epikúrosi víða í ritum sínum, m.a. í Hinum hýru vísindum, Handan góðs og ills og í einkabréfum sínum til Peters Gast. Nietzsche laðaðist m.a. að getu Epikúrosar til að viðhalda glaðværu heimspekilegu viðhorfi þótt hann stæði frammi fyrir líkamlegum sársauka. Nietzsche þjáðist einig af völdum ýmissa sjúkdóma um ævina. Eigi að síður taldi hann að hugmynd Epikúrosar um hamingjuna sem lausn undan sársauka og óróleika væri og passíf og neikvæð.

  • Epicurus, The Essential Epicurus: Letters, Principal Doctrines, Vatican Sayings, and Fragments. Eugene Michael O'Connor (þýð.) (Buffalo: Prometheus Books, 1993). ISBN 0-87975-810-4
  • Epicurus, The Epicurus Reader: Selected Writings and Testimonia. Brad Inwood og Lloyd P. Gerson (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1994). ISBN 0-87220-241-0
  • Long, A.A., From Epicurus to Epictetus: Studies in Hellenistic and Roman Philosophy (Oxford: Oxford University Press, 2006). ISBN 0-19-927912-8
  • Epikúr; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1966
  • Epikúr; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1966
  • „Hvað er ataraxía?“. Vísindavefurinn.
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Epicurus
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Epicurus
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:The Garden of Epicurus