iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Emily_Greene_Balch
Emily Greene Balch - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Emily Greene Balch

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Emily Greene Balch
Fædd8. janúar 1867
Dáin9. janúar 1961 (94 ára)
ÞjóðerniBandarísk
MenntunBryn Mawr-háskóli
StörfRithöfundur, hagfræðingur, kennari
TrúKvekari (áður Únitari)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1946)

Emily Greene Balch (8. janúar 1867 – 9. janúar 1961) var bandarískur hagfræðingur, félagsfræðingur og friðarsinni. Balch var lengi kennari við Wellesley-háskóla og vann um leið við rannsóknir á málefnum eins og fátækt, barnaþrælkun og aðflutningi fólks, auk þess sem hún vann við uppbyggingu landnemabyggða til þess að koma innflytjendum til hjálpar og til að draga úr afbrotamennsku ungmenna.

Balch hóf störf í hreyfingum friðarsinna við byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1914 og vann með Jane Addams frá Chicago. Balch varð einn helsti leiðtogi Alþjóðafélags kvenna fyrir friði og frelsi í Sviss og vann friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín árið 1946.

Emily Greene Balch fæddist hjónunum Francis og Ellen Balch í Boston árið 1867. Faðir hennar var lögfræðingur og hafði unnið sem ritari öldungadeildarþingmannsins Charles Sumner.[1] Emily útskrifaðist úr Bryn Mawr-háskóla árið 1889. Þar hafði hún lesið fornfræðibókmenntir og numið tungumál en hafði einnig einbeitt sér að hagfræði. Eftir útskrift vann Balch í París og birti niðurstöður rannsókna sinna á fátækrahjálp í ritgerð með titlinum Public Assistance of the Poor in France (1893). Balch vann við byggingu landnemabyggða í Boston en ákvað síðan að helga feril sinn frekari menntastörfum.

Balch nam við Harvard-háskóla, Háskólann í Chicago og Berlínarháskóla og byrjaði að kenna við Wellesley-háskóla árið 1896. Hún sérhæfði sig í rannsóknum á aðflutningi, neyslu og efnahagshlutverkum kvenna. Árið 1913 var hún útnefnd hagfræðiprófessor við Wellesley-háskóla eftir að stjórnmálahagfræðingurinn Katharine Coman, sem hafði stofnað deildina, sagði af sér.[2] Sama ár var Balch hækkuð í tign úr stöðu aðstoðarprófessors og varð prófessor í stjórnmálahagfræði og stjórnmála- og félagsvísindum.[3]

Balch var meðlimur í ýmsum ríkisnefndum, meðal annars fyrstu nefndinni sem sett var til að ræða lágmarkslaun kvenna. Hún var leiðtogi í Stéttarfélagasambandi kvenna, sem studdi konur sem voru aðilar að verkalýðsfélögum. Balch gaf út félagsfræðirannsóknina Our Slavic Fellow Citizens árið 1910.[4]

Balch hafði lengi verið friðarsinni og þegar Bandaríkin hófu þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni hóf hún pólitíska aðgerðastefnu til þess að mótmæla herkvaðningu í njósnalögum og til þess að vernda réttindi þeirra sem neituðu að gegna herþjónustu af samviskuástæðum. Hún starfaði með Jane Addams í Friðarflokki kvenna og ýmsum öðrum samtökum.

Í bréfi sem Balch skrifaði forseta Wellesley-háskóla hvatti hún til þess að fólk fylgdi „fordæmi Jesú“ og lýsti því jafnframt opinskátt yfir að bandarískur efnahagur væri ekki í samræmi við þau kristnu gildi sem Bandaríkjamenn segðust aðhyllast.[5] Balch var leyst frá störfum hjá Wellesley-háskóla árið 1919. Hún var síðar ritstjóri stjórnmálatímaritsins The Nation.[6]

Balch snerist frá únitarisma til kvekaratrúar árið 1921. Hún sagði um þá ákvörðun sína:

„Trúarbrögð eru að mínu mati eitt það áhugaverðasta í lífinu, eitt flóknasta, ríkulegasta og æsifengnasta svið mannlegrar hugsunar og íhugunar ... trúarreynsla og -hugsun þarfnast ljóss, dags og sólskins og þess að vera deilt með öðrum, en að mínu mati viðgengst almennt of lítið af þessu ... upp á sitt besta finnst mér trúariðkun kvekara bjóða upp á samheldni af þessu tagi án þess að það leiði til vanhelgunar.“[7]

Eftir heimsstyrjöldina varð Balch einn helsti leiðtogi Bandaríkjamanna í alþjóðlegum hreyfingum friðarsinna. Árið 1919 lék hún lykilhlutverk í Alþjóðaráði kvenna. Alþjóðaráðið breytti síðar nafni sínu í Alþjóðafélag kvenna fyrir friði og frelsi og gerði sér höfuðstöðvar í Genf. Balch var ráðin sem féhirðir Alþjóðafélagsins og skipulagði aðgerðir þess. Hún tók þátt í stofnun sumarskóla sem héldu utan um menntun í friðarmálum og stofnaði nýjar deildir félagsins í rúmlega 50 ríkjum. Hún vann með hinu nýstofnaða Þjóðabandalagi við reglugerðir um fíkniefnaeftirlit, flugferðir, flóttamenn og afvopnun.

Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út studdi Balch sigur bandamanna og gagnrýndi ekki stríðsrekstur bandamannaþjóðana. Hún studdi hins vegar réttindi þeirra sem neituðu að gegna herþjónustu.[8]

Balch vann friðarverðlaun Nóbels árið 1946 fyrir störf sín í þágu Alþjóðafélags kvenna fyrir friði og frelsi. Hún eftirlét félaginu verðlaunaféð sitt.[9] Í þakkarræðu sinni í Ósló vakti hún athygli á hættum þjóðernishyggju og á baráttunni fyrir heimsfriði.[10] Balch giftist aldrei. Hún lést árið 1961, daginn eftir 94. afmælisdaginn sinn.

  • Alonso, Harriet Hyman (1993). Peace As a Women's Issue: A History of the U.S. Movement for World Peace and Women's Rights. Syracuse University Press. ISBN 0815602693. OCLC 25508750.
  • Foster, Catherine (1989). Women for All Seasons: The Story of the Women's International League for Peace and Freedom. University of Georgia Press. ISBN 0820310921. OCLC 18051898.
  • Gwinn, Kristen E. (2010). Emily Greene Balch: The Long Road to Internationalism. University of Illinois Press. ISBN 9780252090158. OCLC 702844599.
  • McDonald, Lynn (1998). Women Theorists on Society and Politics. Waterloo, Ontario, Canada: Wilfrid Laurier University Press. ISBN 0-88920-290-7.
  • Nichols, Christopher McKnight (2011). Promise and Peril: America at the Dawn of a Global Age. Harvard University Press. ISBN 9780674061187. OCLC 754841336.
  • Randall, Mercedes M. (1964). Improper Bostonian: Emily Greene Balch. Twayne Publishers. OCLC 779059266., scholarly biography*
  • Randall, Mercedes M., ed. (1972). Beyond Nationalism: The Social Thought of Emily Greene Balch. New York: Twayne.
  • Solomon, Barbara Miller. "Balch, Emily Greene," in Barbara Sicherman and Carol Hurd Green, eds. Notable American Women: The Modern Period, A Biographical Dictionary (1980) pp 41–45
  • Who's Who in New England, Marquis, 1916
  • Emily Green Balch, æviágrip á vefi Nóbelsverðlaunanna.
  • Tribute to Emily Greene Balch by John Dewey, pages 149–150 in Later Works of John Dewey volume 17. Upphaflega birt af Alþjóðafélagi kvenna fyrir friði og frelsi, 1946 bls. 2.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1870 United States Federal Census
  2. „Farewell dinner to Miss Coman“. The New York Times. 4. maí 1913. Sótt 2. september 2018.
  3. „New Wellesley dean“. 30. mars 1913. Sótt 2. september 2018.
  4. „Emily Greene Balch - Biographical - NobelPrize.org“. web.archive.org. 30. maí 2019. Afritað af uppruna á 30. maí 2019. Sótt 30. maí 2019.
  5. Mercedes Moritz Randall, Improper Bostonian: Emily Greene Balch, Nobel Peace Laureate, 1946 (1964) pp. 364, 378.
  6. „Emily Greene Balch - Biographical - NobelPrize.org“. web.archive.org. 30. maí 2019. Afritað af uppruna á 30. maí 2019. Sótt 30. maí 2019.
  7. Randall, Improper Bostonian, bls. 60
  8. Suzanne Niemeyer, editor, Research Guide to American Historical Biography: vol. IV (1990) pp. 1806–14
  9. „Emily Greene Balch - Biographical - NobelPrize.org“. web.archive.org. 30. maí 2019. Afritað af uppruna á 30. maí 2019. Sótt 30. maí 2019.
  10. „Emily Greene Balch - Nobel Lecture: Toward Human Unity or Beyond Nationalism“. Nobelprize.org. 26. júní 1945. Sótt 8. mars 2017.