Draupnir (norræn goðafræði)
Útlit
Draupnir er gylltur hringur Óðins í norrænni goðafræði. Hringur þessi var þannig í gerðinni að níunda hverja nótt drupu af honum átta gullhringir aðrir. Í Gylfaginningu segir að hringur þessi hafi orðið til í bálför Baldurs og er þannig orðrétt:
- Þá var borið út á skipið lík Baldurs, og er það sá kona hans, Nanna Nepsdóttir, þá sprakk hún af harmi og dó. Var hún borin á bálið og slegið í eldi. Þá stóð Þór að og vígði bálið með Mjöllni, en fyrir fótum hans rann dvergur nokkur, sá er Litur nefndur, en Þór spyrnti fæti sínum á hann og hratt honum í eldinn, og brann hann. Að þessari brennu sótti margskonar þjóð. Fyrst að segja frá Óðni að með honum fór Frigg og valkyrjur og hrafnar hans. En Freyr ók í kerru með gelti þeim er Gullinbursti heitir eða Slíðrugtanni. En Heimdallur reið hesti þeim er Gulltoppur heitir. En Freyja ók köttum sínum. Þar kemur og mikið fólk hrímþursa og bergrisar. Óðinn lagði á bálið gullhring þann er Draupnir heitir. Honum fylgdi síðan sú náttúra að hina níundu hverja nótt drupu af honum átta gullhringar jafnhöfgir. Hestur Baldurs var leiddur á bálið með öllu reiði.