iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Bogfimi
Bogfimi - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Bogfimi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Keppt í bogfimi.

Bogfimi er sú iðja að skjóta örvum af boga. Í gegnum aldirnar hefur bogfimi verið notuð í hernaði og til veiða en er nú stunduð sem nákvæmnisíþrótt og er ólympíugrein.

Elstu áreiðanlegu heimildir um bogfimi eru frá því fyrir um 50 þúsund árum. Boginn hefur líklega átt uppruna sinn í veiðisamfélögum, og var síðar gert að stríðsvopni. Bogar tóku við af atlatl sem helsta aðferð við að skjóta. Merki eru um bogfimi á forsögulegum tíma í öllum heimsálfum nema Ástralíu, sem sýnir að bogfimi er bæði einföld og fjölbreytt.

Bogfimi í Evrópu

[breyta | breyta frumkóða]
Enskur langbogahermaður.

Siðmenningar fornaldar, þá sér í lagi Makedóníumenn, Grikkir, Persar, Indverjar og Kínverjar, notuðu mikinn fjölda bogaskytta í herjum sínum. Örvar reyndust sérlega áhrifaríkar gegn þéttum herfylkingum, og notkun bogaskytta réð oft úrslitum í stríðum. Bogaskyttur riðu stundum á hestbaki til þess að sameina hraða og langdrægni. Apollon, Ódysseifur og aðrar goðsagnaverur voru oft málaðar með boga í hönd.

Á miðöldum var bogfimi mun minna notuð í hernaði í Vestur-Evrópu en almennt er talið. Bogaskyttur voru oft verst launuðu hermenn herja, og jafnvel voru þeir teknir úr röðum bænda. Þetta var fyrst og fremst raunin sökum þess hve ódýrt var að koma upp fullbúinni bogaskyttu miðað við það hvað það kostaði að útbúa hermann með góða brynju og sverð. Bogar voru sjaldan miklir áhrifavaldar í stríðum þá og voru álitnir leikföng eða smælingjavopn af hefðarfólki. Víkingar notuðu þó boga í miklum mæli, með góðum árangri, í ránsferðum um alla strandlengju Vestur-Evrópu, og jafnvel langt inn á Miðjarðarhaf á 9. og 10. öld.

Á tíma hundraðárastríðsins voru Englendingar byrjaðir að nota stóra hópa bogaskytta sem öflugt vopn í hernaði. Ensku langbogarnir voru til á hverju heimili, en frjálsum bændum var skipað að æfa reglulega frá unga aldri. Sérhver strákur fékk boga í sinni hæð, og voru haldnar keppnir til þess að hvetja fólk til árangurs. Í hundraðárastríðinu skutu breskir langbogahermenn af bogunum með tveimur fingrum; vísifingri og löngutöng. Franskir hermenn sem náðu að hertaka bogaskytturnar hjuggu þá gjarnan af þeim þá fingur, og er upp frá því komin sú ögrun sem þekkist á Bretlandseyjum enn í dag, að sýna þessa tvo putta sundurglennta sem tákn um sigur.

Í bardaga myndu þeir gjarnan skjóta tveimur örvum í senn, öðrum hátt og öðrum lágt. Þær myndu hæfa andstæðinginn samtímis úr mismunandi stefnum, og gerðu þannig allar varnartilraunir erfiðar. Tilkoma bodkin hausa varð til þess að örvarnar höfðu meiri áhrif á skildi og brynjur.

Lásbogar eru upprunnir frá klassíska tímabilinu, en urðu fremur vinsælir á miðöldum. Það tók mörg ár að þjálfa langbogahermann, en hver sem er gat orðið sæmilega fær með lásboga á tiltölulega stuttum tíma. Lásbogar höfðu svipað afl og drægni og langbogar, en helsti ókostur þeirra var hve langan tíma það tók að endurhlaða þær. Það að lásbogar gátu skotið í gegn um brynjur olli ótta meðal lénsherrana, og var vopnið því bannað í öðru Lateranaráðinu, í það minnsta meðal kristinna manna, en með litlum árangri.

Tilkoma skotvopna gerði úreldaði boga í hernaði. Þó svo að bogar höfðu meiri drægni og gátu skotið hraðar en fyrstu byssurnar, þá gátu byssur skotið í gegnum velflestar brynjur og þurfti litla kunnáttu eða þjálfun til þess að beita þeim. Síðari þróun gaf skotvopnum smám saman kosti fram yfir boga í drægni, nákvæmni, og að lokum hleðslutíma. Þegar að bogar fóru að glata vinsældum sínum mátti sjá ýmsar konunglegar tilskipanir sem kváðu á um bogfimiiðkun allra vopnbærra karlmanna, en það náði hámarki með tilskipun Henry VIII um að öll íþróttaiðkun væri bönnuð á sunnudögum, að bogfimi undanskilinni.

Bogfimi í Asíu

[breyta | breyta frumkóða]

Bogfimi hafði einnig náð mikilli útbreiðslu í Asíu. Í nútímanum er enn iðkuð bogfimi í Asíulöndum, en er ekki stunduð sem alþjóðleg keppnisíþrótt. Miðasískar skyttur voru einstaklega færar í að skjóta af hestbaki, og Mongólir notuðu það til gríðarlegra landvinninga. Þeir skutu andstæðinginn þegar þeir nálguðust hann, og snéru sér svo við á hnakkinum til þess að skjóta aftur eftir að þeir fóru fram hjá.

Örvar þeirra voru mýkri og sveigjanlegri en vestrænar örvar, með minni fjöðrum.

Bogfimi var mjög útbreidd í Indlandi, og fjallar eitt af helstu trúarritum Hindúisma, Bragavad Gita, um hetjudáðir bogaskyttunnar Arjuna og samskipti hans við guðina. Bogi hans, Gandiva, er Indverskur samoki sverðsins Excalibur.

Bogfimi á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi þekkist bogfimi úr Íslendingasögunum. Frægastur er Gunnar á Hlíðarenda í þessu samhengi, en hann er sagður hafa átt boga sem aldrei missti marks, en vitað er að bogi hans hefur verið útlitslega frábrugðinn þeim bogum sem tíðkuðust á þessum tíma. Nýlegar kenningar gefa til kynna að boginn kunni að hafa verið húnbogi, kominn til Íslands frá Asíu í gegnum Miklagarð eða Kænugarð, og þangað frá Silkiveginum. Þá hefur fundist beinhringur með sérkennilegum rákum og fallegum myndskreytingum sem Þórarinn Eldjárn taldi að væri þumalhringur fyrir bogskyttur frekar en „servíettuhringur fornaldar“. Hann var síðar neyddur til þess að draga þessa kenningu til baka.

Bogfimi íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Heimssambandið í bogfimi World Archery var stofnað 1931 í Póllandi.[1]

Bogfimi hefur verið stunduð sem íþróttagrein á Íslandi frá árinu 1974. Þá var Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík stofnað, og hófust þá skipulagðar æfingar á bogfimi.

Bogfimisamband Íslands var stofnað í desember 2019.[2] Bogfiminefnd starfaði á vegum ÍSÍ frá 1994 til 2019.[3]

  1. „History of World Archery“. World Archery (enska). 23. apríl 2015. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. janúar 2020. Sótt 9. apríl 2020.
  2. Ólafsson, Höfundur Albert (2. desember 2019). „Sambandslögin samþykkt 1. desember 2019“. Bogfimisamband Íslands. Sótt 9. apríl 2020.
  3. „World Archery Iceland“. World Archery (enska). Sótt 9. apríl 2020.