iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Bauhaus
Bauhaus - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Bauhaus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bauhaus-skólabyggingin í Dessau
Bauhaus-skólabyggingin í Dessau

Staatliches Bauhaus, einnig þekktur sem Bauhaus, var þýskur skóli þar sem kennd var hönnun, arkitektúr og iðngreinar frá árinu 1919 til 1933. Skólinn var stofnaður í Weimar af Walter Gropius, þýskum arkitekt, sem sameinaði tvo listaskóla undir merkjum Bauhaus. Helsta markmið skólans var að binda endi á hina fastheldnu skiptingu í myndlist og handverk og þjálfa nemendur jafnt í listgreinum og tæknilegri verkkunnáttu.[1]

Bakgrunnur & stofnun

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1915 bað Henry Van de Velde, skólastjóri listiðnaðarskólans í Weimar, Walter Gropius um að verða eftirmaður sinn.[2] Þegar fyrri heimsstyrjöldinni var lokið 1918 leitaði Gropius staðfestingar á ráðningu sinni. Það gekk eftir og skömmu síðar sótti Gropius um að steypa listiðnaðarskólanum í Weimar (Sächsische Kunstgewerbeschule) og listaháskólanum í Weimar (Sächsische Hochschule für Bildende Kunst) saman í einn undir nafninu das Staatliche Bauhaus.[3][4]

Hugtakið Bauhaus smíðaði Gropius sjálfur með því að skeyta saman þýsku sögninni bauen, að byggja, og nafnorðinu Haus, hús. Heitið var hugsað sem myndlíking fyrir hugsjónir skólans en Gropius trúði á kenningar um Gesamtkunstwerk eða heildarlistaverk þar sem hönnun var samruni allra list- og iðngreina og arkitektúr trónaði á toppnum.[5] Gropius hélt því fram að hönnun gæti endurskapað betra, heillegra og lýðræðislegra þjóðfélag.[6]

Í apríl 1919 var Gropius formlega ráðinn skólastjóri Bauhaus og síðar í sama mánuði birtist fræg stefnuyfirlýsing Gropiusar í þýskum dagblöðum og einnig var henni dreift í listaskóla.[7] Í fyrsta lagi vildi hann gera arkitektúr ráðandi á vettvangi hönnunar. Í öðru lagi vildi Gropius grafa undan hefðbundinni virðingarröð list- og iðngreina og gera iðngreinum jafnhátt undir höfði og myndlist. Þriðja markmiðið var svo að hleypa nýju lífi í iðnaðarframleiðslu með því að sameina krafta listamanna, iðnrekenda og handverksmanna.[8]

Rætur Bauhaus liggja í miðri nítjándu öld. Enski hönnuðurinn William Morris leiddi hreyfingu umbótasinna sem vildu brúa bilið milli listar og handverks með því að leggja áherslu á hágæða handunna muni sem væru hannaðir með ákveðna notkun að leiðarljósi. Undir lok nítjándu aldar urðu þessar hugsjónir að Arts and Crafts-hreyfingunni. Bauhaus tók upp á sína arma hugmyndir þeirra um að góð hönnun ætti við á sérhverju sviði hversdagslífsins en hafnaði hins vegar áherslunni á staka munaðarvöru. Gropius gerði sér grein fyrir að ef hönnun ætti að geta haft einhver áhrif á tuttugustu öldinni yrði að vera hægt að fjöldaframleiða hana með vélum. Þessar hugmyndir Gropiusar hafa haft mikil áhrif á nútímahönnuði sem leggja yfirleitt meiri áherslu á hagnýta hluti eða skrautmuni fyrir fjöldaframleiðslu en staka hluti fyrir ríka yfirstétt.[9]

Markmið skólans var að þjálfa upp kynslóð af arkitektum og hönnuðum sem gætu staðið undir kröfum tuttugustu aldarinnar.[10] Nemendur á öllum aldri og af öllum þjóðernum voru hvattir til að sækja um.[11] Á þeim fjórtán árum sem Bauhaus starfaði sóttu um 1250 nemendur skólann en aðeins tæplega 500 útskrifuðust.[12][13] Nemendur hvaðanæva af Þýskalandi gengu í skólann og voru allt frá 17 ára til fertugs. Að minnsta kosti helmingur karlmannanna höfðu verið í fremstu víglínu í fyrri heimsstyrjöldinni.[14]

Skólinn átti alls ekki að vera akademískur og til að undirstrika muninn á Bauhaus og öðrum listaskólum var hefðbundnum titlum skipt út fyrir orðaforða miðaldagilda; kennarar voru „meistarar“ og nemendur voru „iðnsveinar“ og „lærlingar“.[15] Námsskráin var byggð á „hagnýtri“ kennslu annars vegar og „formlegri“ hins vegar. Hagnýta hliðin sneri að efnisnotkun og vinnuferlum en sú formlega skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi var athugun þar sem skoða átti náttúru og efnivið. Í öðru lagi var framsetning sem snerist um rúmfræði, smíði, teiknun og módelgerð. Í þriðja og síðasta lagi var samsetning þar sem viðfangsefnið var umfang, litir og hönnun.

Lærlingar þurftu að ljúka við þrjú námskeið til að útskrifast. Það fyrsta var undirbúningsnámskeið sem stóð í sex mánuði og miðaði að því að losa nemendur við alla hefðbundna kunnáttu sem þeim hafði áður hlotnast og kynna fyrir þeim kenningar og hætti vinnustofa skólans. Að loknum undirbúningi fengu nemendur aðgang að vinnustofunum. Kennslan í vinnustofunum varaði þrjú ár og að þeim loknum fékk nemandi prófskírteini.[16]

Eitt mesta ágreiningsefnið innan Bauhaus voru tengsl myndlistar og handverks. Eins og fram hafði komið í stefnuyfirlýsingu Gropiusar dró hann í efa hið venjubundna stigveldi listgreina þar sem handverk sat skör lægra en myndlist. Engu að síður voru myndlistarmenn stór hluti kennara skólans í Weimar og því var greinilega talsverð slagsíða í kennslunni.

Gropius sá fyrir sér að samruni hönnunar og iðnaðar væri árangursríkasta leiðin til framfara í hönnun. Þess vegna var námsskráin samin með komandi kynslóð iðnhönnuða í huga og mikil áhersla lögð á samvinnu efniviðar og framleiðsluferla. Undirbúningsnámskeiðið átti að móta grunninn og vinnustofurnar stefndu svo að áframhaldandi samþættingu myndlistar og handverks.

Hinn mikli meirihluti kennara með bakgrunn í myndlist kom þó að öðrum hugmyndum en þeim sem Gropius hafði hugsað sér. Í fyrstu var til að mynda þónokkur áhersla á óhlutbundna tjáningu og einstaklingsbundið myndmál.[17]

Yfirvöld í Weimar töldu sig greina sósíalískar tilhneigingar innan skólans og fannst þeim stafa ógn af hinum róttæka anda hans. Tortryggnin óx eftir nóvemberbyltinguna 1918 og loks var skólanum sagt að taka saman föggur sínar og flytja annað árið 1925.[18]

Árið 1926 opnaði Bauhaus í Dessau í nýju húsnæði sem var sérstaklega hannað af Gropiusi fyrir stofnunina. Öll húsgögn og innréttingar voru hönnuð af nemendum og kennurum skólans. Heildarhönnunina má túlka sem tákn hugsjónar Gropiusar um einingu listarinnar og lífsins.[19] Byggingarnar voru eins konar stefnuyfirlýsing Gopiusar og tákn alls þess sem Bauhaus stóð fyrir. Byggingasamstæðan sýndi samruna hins tæknilega, félagslega og fagurfræðilega sem Gropius hafði alltaf stefnt að.[20]

Skólinn samanstóð af þremur meginhlutum; skólanum sjálfum, vinnustofunum og heimavist nemenda. Skólabyggingin var þriggja hæða blokk sem tengd var við vinnustofurnar með brú. Brúin hýsti skrifstofur, klúbbherbergi og vinnuherbergi Gropiusar. Vinnustofuhlutinn var sá stærsti í samstæðunni. Hann var á þremur hæðum og önnur brú tengdi hann við heimavistina sem var sex hæða bygging með 28 herbergjum. Hvert herbergi var hugsað sem vinnu- og svefnherbergi og hafði eigin svalir. Í brúarhlutanum var matsalur, fyrirlestrasalur og svið. Veggina sem umluktu sviðið mátti fjarlægja og þannig breyta rýminu öllu í stóran sal. Að auki voru sjö hús byggð fyrir starfsfólk skólans.

Fyrsta ár Bauhaus í Dessau snerust flest vinnustofunámskeiðin um verkefni tengd byggingu skólans; til dæmis voru þar smíðuð húsgögn úr stálrörum fyrir samkomusalinn, í málmsmiðjunni var ljósabúnaður hannaður og veggmálaradeildin sá um innanhússarkitektúrinn.[21]

Eftir að Bauhaus flutti til Dessau varð skólinn þekktur sem miðstöð hinnar svokölluðu „fagurfræði vélarinnar“ sem hvatti til einfaldleika og stöðlunar forma. Eftir 1923 fór einnig að gæta áhrifa frá hinni hollensku De Stijl-hreyfingu og varð þeirra áhrifa vart í hönnun skólans á meðan hann var í Dessau.[22]

Í ágúst 1932 náðu nasistar völdum í héraðinu Anhalt sem náði yfir Dessau. Í augum nasista var Bauhaus tákn bolsévisma, úrkynjunar og eyðileggingar. Mies van der Rohe, sem þá hafði tekið við skólastjóraembætti, og Fritz Hesse, borgarstjóri Dessau, reyndu að telja þeim hughvarf en röksemdafærslur dugðu skammt og skólanum var lokað í október 1932.

Þó tókst Mies að opna skólann á ný í Berlín og þá sem einkarekna stofnun. Hann tók á leigu símaverksmiðju sem ekki var lengur í notkun og hélt skólanum gangandi þar í sex órólega mánuði. Þá komst Adolf Hitler til valda og ofsóknir gegn Bauhaus héldu áfram. Þann 11. apríl 1933 hernam Gestapo skólann og leitaði dyrum og dyngjum að sönnunargögnum um kommúníska starfsemi. Nemendum og starfsfólki var meinað að snúa aftur til starfa. Mies reyndi í nokkrar vikur að fá hin nýju stjórnvöld til að opna skólann aftur en þau settu honum skilyrði sem hann gat ekki gengist við og að lokum var skólinn endanlega lagður niður í júlí 1933.[23]

Þrátt fyrir að hafa aðeins starfað í fjórtán ár og lokið með svo skyndilegum hætti hefur Bauhaus haft gríðarleg áhrif á nútímahönnun og arkitektúr. Eitt mikilvægasta framlagið er ef til vill áherslan á hið mannlega. Bauhaus kenndi nútímahönnuðum að reyna að skilja hvort tveggja sálfræðilegar og líffræðilegar þarfir mannsins. Gropius hélt því ávallt fram að hönnuður bæri fyrst og fremst ábyrgð gagnvart þeim sem notar hönnunina – hann gæti ekki komið á nýju lífsmynstri með byltingarkenndri hönnun fyrr en samfélagið væri tilbúið að veita henni viðtöku.[24]

  1. „Bauhaus,“ Encyclopædia Britannica, sótt 15. apríl 2015 af http://www.britannica.com/EBchecked/topic/56418/Bauhaus.
  2. Judith Carmel Arthur, Bauhaus, London: Carlton Books, 2000, bls. 10.
  3. Gillian Naylor, The Bauhaus, endurprentun, London: Studio Vista, 1969, bls. 48.
  4. Arthur, Bauhaus, bls. 11.
  5. Arthur, Bauhaus, bls. 11.
  6. Arthur, Bauhaus, bls. 12.
  7. Naylor, The Bauhaus, bls. 48.
  8. Arthur, Bauhaus, bls. 12.
  9. „Bauhaus.“
  10. Naylor, The Bauhaus, bls. 7.
  11. Naylor, The Bauhaus, bls. 50.
  12. Arthur, Bauhaus, bls. 10.
  13. Naylor, The Bauhaus, bls. 7.
  14. Naylor, The Bauhaus, bls. 50.
  15. Naylor, The Bauhaus, bls. 50.
  16. Naylor, The Bauhaus, bls. 55–56.
  17. Arthur, Bauhaus, bls. 14–15.
  18. Arthur, Bauhaus, bls. 11.
  19. Arthur, Bauhaus, bls. 17.
  20. Naylor, The Bauhaus, bls. 107.
  21. Naylor, The Bauhaus, bls. 107.
  22. Arthur, Bauhaus, bls. 17–18.
  23. Naylor, The Bauhaus, bls. 152–153.
  24. Naylor, The Bauhaus, bls. 156.