iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/1631-1640
1631-1640 - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

1631-1640

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
4. áratugurinn: Fall Gústafs 1. Adolfs í orrustunni við Lützen; umsátrið um Hara-kastala í Shimabara-uppreisninni; morðið á Albrecht von Wallenstein; Galileo Galilei frammi fyrir rómverska rannsóknarréttinum; uppgjöf Rússa eftir umsátrið um Smolensk (1634).
Árþúsund: 2. árþúsundið
Öld: 16. öldin · 17. öldin · 18. öldin
Áratugir: 1611–1620 · 1621–1630 · 1631–1640 · 1641–1650 · 1651–1660
Ár: 1631 · 1632 · 1633 · 1634 · 1635 · 1636 · 1637 · 1638 · 1639 · 1640
Flokkar: Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður

1631-1640 var fjórði áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu.

Í Evrópu einkenndist áratugurinn öðru fremur af ófriði. Svíar tóku þátt í Þrjátíu ára stríðinu og náðu miklum árangri til að byrja með, auk þess að tryggja beina þátttöku Frakka í stríðinu gegn keisaranum. Í Skotlandi urðu deilur um bænabók til þess að Karl Englandskonungur beið ósigur fyrir Sáttmálamönnum í Biskupastríðunum og neyddist til að kalla enska þingið saman sem aftur leiddi til Ensku borgarastyrjaldarinnar.

Helstu atburðir og aldarfar

[breyta | breyta frumkóða]
Búddastyttur sem kristnir uppreisnarmenn í Shimabara-uppreisninni í Japan (1637-1638) hjuggu höfuðin af.

Þrjátíu ára stríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir nær samfellda sigurgöngu í Þrjátíu ára stríðinu fyrstu tvö árin misstu Svíar konung sinn Gústaf 2. Adolf í orrustunni við Lützen 1632. Ríkiskanslarinn Axel Oxenstierna tók þá við stjórnartaumunum fyrir hönd hinnar barnungu Kristínar drottningar, hélt sjálfur til Þýskalands og sá til þess að sænski herinn hélt herförum sínum þar áfram. Herstjóri keisarans, Albrecht von Wallenstein var myrtur 1634 vegna gruns um að hann ætti í friðarviðræðum við Svía. Í orrustunni við Nördlingen 1634 biðu Svíar sinn fyrsta afgerandi ósigur gegn keisarahernum en Oxenstierna samdi þá við Frakka um enn frekari stríðsstyrk og tryggði beina þátttöku þeirra í stríðinu, en fram að því höfðu þeir látið sér nægja að fjármagna það.

Einangrun Japans

[breyta | breyta frumkóða]

Í Japan hófst einhliða einangrun Japans fyrir alvöru árið 1636 með því að sjóguninn bannaði allar ferðir Japana til og frá landinu að viðlagðri dauðarefsingu. Skipulegar ofsóknir gegn kristnum Japönum höfðu hafist í upphafi áratugarins. Shimabara-uppreisnin var uppreisn kristinna bænda gegn herstjóraveldinu. Hún var barin niður 1638 þegar hersveitir herstjórans tóku Harakastala á Shimabara. Um 37 þúsund uppreisnarmenn voru hálshöggnir og kristin trú bönnuð með öllu í landinu.

Biskupastríðin í Skotlandi

[breyta | breyta frumkóða]
Málverk af hinni kaþólsku drottningu Karls 1. Englandskonungs, Henríettu Maríu, eftir hollenska listmálarann Antoon van Dyck frá 1633.

Karl 1. Englandskonungur hélt áfram einveldistilburðum sínum og ríkti án enska þingsins. Tilraun hans til að koma á nýrri bænabók í Skotlandi varð til þess að upp úr sauð og Skotar hófu Biskupastríðin gegn konungi. Á endanum neyddist Karl til að boða nýtt þing 1640 til þess að semja við Skota um friðarskilmála. Þetta sama þing átti síðar eftir að steypa Karli af stóli og taka hann af lífi.

Verslunarstaðir, nýlendur og landkönnun

[breyta | breyta frumkóða]

Hollendingar áttu sitt mesta útþensluskeið í Austur-Indíum þar sem þeir reistu bækistöðvar og hröktu Portúgali frá verslunarstöðum. Konungssamband Portúgals og Spánar leið svo undir lok 1640 þegar Jóhann 4. var hylltur sem konungur Portúgals. Uppihald hins vel þjálfaða spænska atvinnuhers og stríðið við Frakkland var orðið íþyngjandi fyrir héruð undir stjórn Spánar sem leiddi til Sláttumannaófriðarins 1640.

Englendingar héldu áfram að stofna nýlendur á austurströnd Norður-Ameríku. Þessar nýlendur efldust og voru í stakk búnar til að verjast árásum indíána sem reyndu að reka Evrópubúana af höndum sér.

Rússneskir kósakkar í þjónustu Mikaels Rómanovs náðu til Kyrrahafsins í fyrsta skipti við Okotsk. Það var mikilvægur áfangi í því að leggja Síberíu undir keisarann.

Íslendingar snúa heim úr Barbaríinu

[breyta | breyta frumkóða]

Um miðjan áratuginn voru 35 Íslendingar sem teknir höfðu verið í Tyrkjaráninu keyptir lausir úr Barbaríinu. 27 sneru heim með skipi um vorið 1637, þeirra á meðal Guðríður Símonardóttir sem strax hóf búskap með Hallgrími Péturssyni á Suðurnesjum.

Vísindasaga

[breyta | breyta frumkóða]

1633 var Galileo Galilei neyddur til þess að draga stuðning sinn við sólmiðjukenningu Kópernikusar opinberlega til baka frammi fyrir rómverska rannsóknarréttinum. Til merkis um aukinn áhuga á fornsögum Norðurlanda var fyrsta prentaða útgáfa Heimskringlunorskri þýðingu) gefin út í Kaupmannahöfn árið 1633. Hið byltingarkennda rit Orðræða um aðferð eftir René Descartes kom út 1637 þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um hnitakerfi og setninguna frægu „cogito ergo sum“. Sama ár skrifaði Pierre de Fermat athugasemd á spássíu þar sem hann sagðist hafa sönnun fyrir því sem síðar var kallað síðasta setning Fermats.

Tokugawa Iemitsu, herstjóri
Shah Jahan, Mógúlkeisari
1631 1632 1633 1634 1635 1636 1637 1638 1639 1640
Dalai Lama Ngawang Lobsang Gyatso (1617/1642 - 1688)
Dansk-norska ríkið Kristján 4. (1596-1648)
England, Írland og Skotland Karl 1. (1625-1649)
Eþíópía Susenyos (1608-1632) Fasilides (1632-1667)
Frakkland Loðvík 13. (1610-1643)
Heilaga rómverska ríkið Ferdinand 2. (1619-1637) Ferdinand 3. (1637-1657)
Holland Friðrik af Óraníu (1625-1647)
Japan Meishō keisaraynja (1629-1643)
Tokugawa Iemitsu (1623-1651)
Krímkanatið Canibek Giray (1628-1635) İnayet Giray Bahadır 1. Giray (1637-1641)
Marokkó Al Walid ben Zidan Mohammed esh Sheikh es Seghir (1636-1655)
Mingveldið Chongzhen keisari (1627-1644)
Síðara Jinveldið Huang Taiji (1626-1643)
Mógúlveldið Shah Jahan (1628-1658)
Ottómanaveldið Múrað 4. (1623-1640)
Páfi Úrbanus 8. (1623-1644)
Pólsk-litháíska samveldið Sigmundur 3. (1587-1632) Vladislás 4. Vasa (1632-1648)
Rússneska keisaradæmið Mikael Rómanov (1613 - 1645)
Safavídaríkið Safi Persakonungur (1629-1642)
Síam Prasat Thong (1629-1656)
Spánn og Portúgal Filippus 4. (1621-1665)
Svíþjóð Gústaf 2. Adolf (1611-1632) Kristín Svíadrottning (1632-1654)