iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: https://is.wikipedia.org/wiki/Þýringaland
Þýringaland - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Þýringaland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Þýringalands Skjaldarmerki Þýringalands
Fáni Þýringalands
Fáni Þýringalands
Skjaldarmerki Þýringalands
Upplýsingar
Flatarmál: 16.172,50 km²
Mannfjöldi: 2,1 milljón (2021)
Þéttleiki byggðar: 133/km²
Vefsíða: thüringen.de
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Bodo Ramelow (Die Linke)
Lega

Þýringaland (þýska: Thüringen) er eitt af sambandslöndum Þýskalands. Íbúar eru rúmlega 2,1 milljónir talsins (2021), en höfuðborgin heitir Erfurt. Þýringaland var heimaland og eitt helsta áhrifasvæði Marteins Lúthers á 16. öld. Þar má nefna kastalavirkið Wartburg þar sem hann faldist og þýddi Nýja testamentið á þýsku.

Þýringaland er nokkuð miðsvæðis í Þýskalandi og var áður suðvestasta héraðið í gamla Austur-Þýskalandi. Það er umkringt öðrum sambandslöndum og nær hvergi að sjó. Fyrir sunnan er Bæjaraland, fyrir vestan er Hessen, fyrir norðvestan er Neðra-Saxland, fyrir norðan er Saxland-Anhalt og fyrir austan er Saxland.

Héraðið hét upphaflega Turingia (eða Thuringia) og er nefnt eftir samnefndum germönskum þjóðflokki sem þar bjó. Getgátur eru uppi um það að forskeytið thur- sé dregið af gamla germanska orðinu þorri, sem merkir fjöldi. [1]

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Þýringalands hefur tvær láréttar rendur, hvít að ofan og rauð að neðan. Litirnir eru fengnir að láni frá gamla skjaldarmerki Konráðs von Thüringen frá 13. öld. Fáni þessi var tekinn upp 1920 er landið Thüringen var stofnað. Skjaldarmerkið er tvílitað ljón, rautt og hvítt á bláum grunni. Í kringum það eru átta hvítar stjörnur, sem tákna þau sjö fríríki sem Thüringen var sett saman úr 1920, auk einnar stjörnu fyrir Prússland. Ljónið er merki Ludowinger-ættarinnar. Merkið var tekið upp í breyttu formi 1945. Núverandi merki var tekið upp 1990, við sameiningu Þýskalands.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Kastalavirkið Wartburg er á heimsminjaskrá UNESCO.
  • Á 3. öld e.Kr. myndaðist Thüringer þjóðflokkurinn úr germönsku ættbálkunum hermunda, túróna, varna og engla.
  • 480 kemur heitið Thüringen (Thoringi) fyrst við skjöl og var þar þá germanskt ríki sem stóð til 531.
  • 531 hertóku frankar og saxar Thüringen og innlimuðu frankaríkinu.
  • 620 stofnaði Merowinger-ættin hertogadæmi í héraðinu sem stóð til loka aldarinnar. Á þessum tíma voru fyrstu germönsku borgirnar stofnaðar þar, s.s. Arnstadt og Erfurt. Íbúarnir kristnuðust að tilstuðlan heilags Bonifatiusar.
  • Á 11.-13. öld var Ludowinger-ættin áhrifamest í héraðinu. Hún reisti t.d. virkið Wartburg.
  • 1247 dó Ludowinger-ættin út. Upphófst þá erfðastríðið milli Þýringalands og Hessen.
  • 1517 hófust siðaskiptin, en Marteinn Lúther bjó lengst af í Þýringalandi. Hann þýddi Nýja Testamentið á þýsku í kastalavirkinu Wartburg.
  • 1546-47 geysaði trúarstríðið mikla (Schmalkaldischer Krieg) í héraðinu og lauk með sigri kaþólikka.
  • 1572 var héraðið splittað í minni hertogadæmi. Þýringaland kemur eftir það lítið við sögu í Þýskalandi.
  • 1806 fóru fjórar orrustur fram milli Napoleons og Prússa: Í Schleiz, Saalfeld, Jena og Auerstedt. Þeim lauk öllum með sigri Napoleons.
  • 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að stór hluti Þýringalands skyldi tilheyra Prússlandi með greifa- og hertogadæmum sem þar voru.
  • 1919 var Weimar-lýðveldið stofnað í þýrísku borginni Weimar og hélst það fram að valdatöku nasista.
  • 1920 var Þýringaland stofnað úr hertogadæmunum Sachsen-Weimar-Eisenach, Sachsen-Gotha, Sachsen-Meiningen, Sachsen-Altenburg, Schwarzburg-Rudolstadt, Schwarzburg-Sondershausen og fríríkinu Reuss. Sachsen-Coburg ákvað að sameinast Bæjaralandi.
  • Í heimstyrjöldinni síðari urðu borgir í Þýringalandi fyrir tiltölulega fáum loftárásum. Þó var borgin Nordhausen gjöreydd og skemmdir urðu í Erfurt, Gera, Jena, Weimar og Eisenach.
  • 1945 hertóku Bandaríkjamenn landið, en skiluðu því sama ár til Sovétmanna, enda á sovéska hernámssvæðinu. Þýringaland var eftir það hluti af Austur-Þýskalandi. Mikill varnarmúr var reistur við landamærin að Bæjaralandi, Hessen og Neðra-Saxlandi.
  • 1952 var landið leyst upp í landsvæðin Erfurt, Gera og Suhl.
  • 1990 var sambandslandið Þýringaland stofnað í sameinuðu Þýskalandi.
  • 1991 sóttu borgirnar Erfurt, Gera, Jena, Weimar og Nordhausen um að verða valin sem höfuðborg sambandslandsins, en fyrir valinu varð Erfurt.

Stærstu borgir Þýringalands. ( 31. desember 2013)

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Erfurt 205 þús Höfuðborg sambandslandsins
2 Jena 108 þús
3 Gera 95 þús
4 Weimar 63 þús
5 Gotha 44 þús
6 Nordhausen 42 þús
7 Eisenach 42 þús

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 256.

Fyrirmynd greinarinnar var „Thüringen“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júlí 2010.