iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: http://www.velferdarraduneyti.is/rikisstjorn/stjornarsattmali/
Stjórnarráðið | Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs Hoppa yfir valmynd

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs


Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fjallar um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar. Í honum birtast leiðarstef okkar um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða.

Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði. Við trúum því að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags. Skipan ráðuneyta tekur mið af þessari sameiginlegu sýn nýrrar ríkisstjórnar.

Við viljum skapa sátt um nýtingu auðlinda. Við leggjum áherslu á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Um leið er það verkefni okkar að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu auk þess að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn allra kynslóða. Áhersla verður lögð á jafnvægi efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.

Markmið síðasta kjörtímabils var að byggja upp traust í samfélaginu og efla innviði ásamt því að tryggja pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Samhliða því verkefni tókst samfélagið allt á við heimsfaraldur og efnahagskreppu, þar sem árangurinn byggðist á styrkleikum og samtakamætti þjóðarinnar. Lærdómurinn er ekki síst sá að það er mikilvægt að búa í haginn þegar vel árar, sterkir innviðir eru nauðsynlegir og að saman getum við leyst flókin verkefni. Íslenskt samfélag er nú í kjörstöðu til þess að horfa til framtíðar og sækja fram í þágu vaxandi velsældar.

Samstarf þessara þriggja flokka, sem spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapar jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara.

Við ætlum að vaxa til meiri velsældar

Vöxtur og velsæld er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Styrkur ríkisfjármála verður byggður upp á ný á grundvelli öflugs atvinnulífs og áhersla lögð á framúrskarandi umhverfi til verðmætasköpunar þar sem til verða ný, fjölbreytt og verðmæt störf. Samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar verður undirstaða þess að unnt sé að tryggja stöðugleika í verðlagi og vöxtum.

Á kjörtímabilinu verður lögð áhersla á uppbyggingu þar sem við munum styðja við fjölbreyttar og öflugar stoðir efnahagslífsins og beita okkur fyrir aukinni opinberri fjárfestingu í grænum verkefnum og rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Ríkissjóður mun halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða.

Ríkisstjórnin mun stuðla að því að skattkerfið standi undir samneyslu og gegni tekjujöfnunarhlutverki, reglur skattkerfisins séu skýrar og réttlátar og að framkvæmd þeirra sé skilvirk og gagnsæ. Horft verður til frekari eflingar almannaþjónustu og skattalækkana í samræmi við þróun ríkisfjármála. Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.

Við munum áfram leggja ríka áherslu á árangursríkt samráð við aðila vinnumarkaðarins, leitast við að tryggja gott samspil hagstjórnar og kjarasamninga og vinna þannig að því að bæta lífskjör. Til að stuðla að auknum fyrirsjáanleika og bæta verklag verður embætti Ríkissáttasemjara eflt, til dæmis með því að koma á fót standandi gerðardómi. Leikreglur vinnumarkaðar verða skýrðar með nýjum starfskjaralögum og aðgerðum gegn kennitöluflakki og áfram unnið gegn kynbundnum launamun.

Við ætlum að skapa jarðveg tækifæra

Menntun og mannauður er grundvöllur langtímahagvaxtar og velsældar til framtíðar. Við viljum skapa íslensku menntakerfi svigrúm til að bregðast við þeim breytingum og áskorunum sem fram undan eru. Með því að hlúa að skapandi hugsun, þekkingu og vísindum og tryggja öllum tækifæri til þátttöku munum við auka samkeppnishæfni okkar í breyttum heimi. Aukin þekking og skapandi lausnir á brýnum áskorunum munu einnig leysa úr læðingi mikil tækifæri í verðmætasköpun sem verða grunnur að velsældarsamfélagi framtíðarinnar.

Tæknibreytingar kalla á nýja færni fólks til að starfa í flóknu samfélagi og þáttur sí- og endurmenntunar verður enn mikilvægari. Áfram verður unnið að eflingu iðn- og verknáms um land allt og áhersla lögð á að fjölga fólki með tækni- og raungreinamenntun. Hvatt verður til meiri fjölbreytni í skólakerfinu, meðal annars í alþjóðlegu námi. Ýta þarf undir frumkvöðlamenningu í skólum og í þeim tilgangi þarf að efla stuðning við skólastjórnendur og kennara og auka sjálfstæði þeirra í starfi. Huga þarf að eflingu íslenskukennslu fyrir alla kennaranema í takt við breyttar aðstæður í samfélaginu.

Mikilvægt er að hið opinbera öðlist betri yfirsýn yfir mönnunarþörf til langs tíma í heilbrigðis- og menntakerfinu til að mæta betur vaxandi þörf til framtíðar, meðal annars með hliðsjón af aðstæðum í hinum dreifðu byggðum.

Markvisst verður unnið að því að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika íslensks atvinnulífs með því draga úr hindrunum í gildandi regluverki og tryggja að ný löggjöf sé skýr og skilvirk. Skilvirkni í eftirliti með samkeppni og starfsháttum fyrirtækja er mikilvægur þáttur í tryggja að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda. Leiðbeinandi hlutverk eftirlitsstofnana verður skýrt til að tryggja betri eftirfylgni. Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða gerðar breytingar á fyrirkomulagi samkeppnismála og samkeppniseftirlits og það eflt með sameiningu stofnana, lagabreytingum og styrkingu samtaka neytenda.

Ríkisstjórnin mun viðhalda endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, ívilnunum til grænna fjárfestinga og efla grunnsjóði í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Við viljum auðvelda íslenskum fyrirtækjum aðgang að nauðsynlegri sérfræðiþekkingu og í því skyni verður erlendum sérfræðingum auðveldað að setjast að hér á landi og starfa hjá íslenskum fyrirtækjum.

Áfram verður lögð áhersla á opin og frjáls alþjóðaviðskipti, norrænt samstarf og trausta framkvæmd EES-samningsins þar sem hagsmuna Íslands er gætt í hvívetna.

Stuðlað verður að því að fjölga ávöxtunarmöguleikum lífeyrissjóðanna og möguleikum til aukinnar þátttöku í innviðafjárfestingum og grænum fjárfestingum. Fjárfestingar í stafrænum innviðum verða auknar til að styrkja stefnumótun og ákvarðanatöku, tryggja öryggi, bæta þjónustu og auka samkeppnishæfni.

Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu en til þess þarf að sigrast á stórum áskorunum. Þróun og árangur íslensks samfélags hefur byggst á því að skapa jafnvægi í sambýli fólks og náttúru. Á því þarf að byggja til framtíðar og þannig tryggja forsendur til velsældar núverandi og komandi kynslóða.

Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins. Vísindaleg þekking er undirstaða allra aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum og sjálfbærni og réttlát umskipti fyrir alla hópa samfélagsins verða leiðarstefin í yfirstandandi umbreytingum vegna loftslagsvárinnar og tæknibreytinga.

Við munum setja okkur sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Lögð verður áhersla á markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að draga úr losun vegna landnotkunar og hraða orkuskiptum á öllum sviðum. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Ríkisstjórnin mun ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Stjórnvöld munu í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira.

Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og verða í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. Byggt verður á nýlegri orkustefnu þar sem hagsmuna núverandi sem komandi kynslóða er gætt og sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.

Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænnar atvinnuuppbyggingar. Einnig þarf að horfa til betri orkunýtingar, minnka tap í orkukerfinu og bæta nýtingu í virkjunum sem fyrir eru.

Við munum styðja við og greiða fyrir grænni atvinnuuppbyggingu, fjárfestingum og verkefnum sem stuðla að því að yfirlýstum markmiðum stjórnvalda verði náð. Jákvæðum hvötum til fjárfestinga og skilvirkum ívilnunum verður beitt samhliða gjaldtöku vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Regluverk verður endurskoðað ásamt því útbúa einfalda og skýra ferla með hliðsjón af markmiðum stjórnvalda til að gera öllum atvinnugreinum kleift að taka þátt í nauðsynlegum loftslagsverkefnum. Gerð verður áætlun um að efla og þróa rannsóknir og þekkingu á sviði grænna lausna í þágu atvinnulífs og alþjóðlegra verkefna í samstarfi við alþjóðlega aðila. Við ætlum að auka aðgengi að fjármagni til loftslagsverkefna samhliða því að nýsköpunar- og tækniþróunarsjóðum verður gert kleift að styðja í auknum mæli við grænar lausnir.

Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Áhersla verður lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum fjölgað. Lokið verður við þriðja áfanga rammaáætlunar og kostum í biðflokki verður fjölgað. Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verða endurskoðuð frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd orkukosta á Íslandi. Sérstök lög verða sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera og áhersla verður lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Stefna verður mörkuð um vindorkuver á hafi.

Við ætlum að nýta tæknibreytingar til að skapa aukin lífsgæði

Þjóðir heims standa frammi fyrir tækifærum en einnig nýjum áskorunum sem fylgja tækniþróun og stafrænni umbreytingu. Ísland er nýsköpunarland með öfluga tæknilega innviði og á kjörtímabilinu verður lögð áhersla á að styrkja þá stöðu enn frekar. Með nýsköpun og hvers konar hagnýtingu hugvits gerum við atvinnulífið fjölbreyttara og fjölgum spennandi og verðmætum störfum. Við styrkjum samkeppnisstöðu Íslands, aukum velsæld og eflum samfélagið til að mæta örum tæknibreytingum og áskorunum í loftslagsmálum.

Tæknibreytingar og hagnýting gervigreindar þurfa að vera í allra þágu og byggjast á grunngildum um mannréttindi, lýðræði og jöfnuð. Mikilvægt er að efla þekkingu, tryggja jöfn tækifæri og sporna gegn aðstöðumun í breyttu umhverfi. Það verður meðal annars gert með því að styðja við umbreytingar í menntakerfinu og tryggja aðgengi og möguleika allra til sí- og endurmenntunar. Þá verður áfram unnið að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.

Tæknibreytingar hafa skapað nýjan veruleika og ný sóknarfæri í flestum atvinnugreinum. Hugverkaiðnaðurinn er ný og öflug stoð í verðmætasköpun á Íslandi. Tækifærin leynast meðal annars í heilbrigðis- og lífvísindum, hugbúnaðarþróun, grænni tækni og skapandi greinum. Við viljum styðja við umhverfi þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín og það getur vaxið, dafnað og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi alþjóðlegrar samvinnu og samkeppni.

Íslenskur landbúnaður, sjávarútvegur og fiskeldi eru þungamiðja í innlendri matvælaframleiðslu sem verður efld á kjörtímabilinu. Með auknum áhuga á hreinum afurðum, sem framleiddar eru með endurnýjanlegri orku og grunnu kolefnisspori á Íslandi, skapast mikil sóknarfæri í framleiðslu matvæla og ýmissa hliðarafurða. Við viljum búa þessari starfsemi samkeppnishæft umhverfi til að gera henni kleift að standa enn betur undir því fjölþætta hlutverki sem hún gegnir í íslensku samfélagi, meðal annars við að skapa atvinnu og byggðafestu, auk þess að vera mikilvægur valkostur fyrir neytendur á Íslandi. Skipulag náms sem tengist matvælaframleiðslu á framhalds- og háskólastigi verður endurskoðað með það að markmiði að styrkja bæði menntun og rannsóknir.

Þá er brýnt að staða og ímynd Íslands sem norðurslóðaríkis verði efld með því að byggja upp innlenda þekkingu og sérhæfingu í málefnum norðurslóða og efla miðstöðvar mennta, vísinda og umræðu á þessu sviði. Í þessu skyni verður mótuð sérstök rannsóknaráætlun um norðurslóðir.

Miklu skiptir að menntakerfið efli nýsköpunarhugsun, að dyggilega sé stutt við grunnrannsóknir og tækniþróun og allir innviðir kerfisins styðji við hugverkageirann. Innan hefðbundins iðnaðar leynast mikil tækifæri til grænna fjárfestinga þar sem tæknilegar framfarir eru nýttar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka sóun og auka kolefnisbindingu. Stutt verður við nýsköpun með því að stuðla að samstarfi opinberra aðila og einkaaðila til að þróa nýjar lausnir og fjárfestingarumhverfi styrkt með því að festa í sessi heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga þannig að þeir geti átt yfir 20% í nýsköpunar- og vaxtarsjóðum.

Ný tækni og stafrænar lausnir verða nýttar í auknum mæli í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og þannig stuðlað að bættri þjónustu, gæðum og aukinni hagkvæmni í rekstri. Fjarheilbrigðisþjónusta verður efld sérstaklega.

Unnið verður markvisst að því að auka traust almennings á upplýsingatækni með áherslu á netöryggi, persónuvernd, upplýsingarétt, tjáningarfrelsi og upplýsingaöryggi. Á sama tíma er brýnt að auka stafræna færni fólks, þar á meðal til þess að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar.

Áfram verður unnið á grundvelli þjóðaröryggisstefnu Íslands en kallað eftir frekari skoðun á þeim fjölþættu ógnum sem samfélög standa frammi fyrir vegna örra tæknibreytinga og áskorana í loftslagsmálum. Skýr rammi verður settur um fjárfestingar í mikilvægum innviðum og lokið við endurskoðun á jarðalögum.

Lögreglan og önnur lögregluyfirvöld þurfa að vera í stakk búin til að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiða af skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og fjarskipta- og nettengingum.

Við ætlum að fjárfesta í fólki

Auður íslensks samfélags byggist á því að við skiptum öll máli og því er mikilvægt að við fáum öll tækifæri til þess að taka þátt. Einstaklingurinn er hjartað í kerfinu, hvort sem um er að ræða börn, fatlað fólk, öryrkja eða þá sem hingað flytja til að taka þátt í íslensku samfélagi. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar og tryggir að við getum öll blómstrað.

Ein stærsta breytingin á samsetningu samfélagsins næstu árin er fólgin í því að þjóðin er að eldast. Mikilvægt er að stuðla að heilbrigði og lífsgæðum fólks með áherslu á lýðheilsu og að fólki sé gert kleift að nýta hæfileika sína og krafta. Við ætlum að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu. Áfram þarf að þróa fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir, svo sem sveigjanlega dagþjálfun, og nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Sérstaklega verður lögð áhersla á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika. Einnig viljum við horfa til aukins sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera.

Afkoma ellilífeyrisþega verður áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa. Almannatryggingakerfi eldri borgara verður endurmetið og frítekjumark atvinnutekna tvöfaldað um næstu áramót. Horfa þarf til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara.

Við ætlum að renna styrkari stoðum undir lífeyriskerfið og stuðla að aukinni hagkvæmni og fjölbreyttari ávöxtunarmöguleikum. Útfærðar verða leiðir til að auka frelsi fólks til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði. Lögfest verður 15,5% skylduiðgjald til lífeyrissjóðs og útfærslan unnin að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Málefni örorkulífeyrisþega verða tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku. Sérstaklega verður horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Lögð verður rík áhersla á val einstaklinga til að taka þátt í nýju kerfi. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og sett á fót ný Mannréttindastofnun.

Við tökum fast utan um húsnæðismálin með því að tryggja aukna samþættingu húsnæðis-, skipulags- og samgöngumála. Við munum beita okkur fyrir stöðugri uppbyggingu húsnæðis um land allt með einföldun regluverks, félagslegum aðgerðum í gegnum almenna íbúðakerfið, bættri réttarstöðu leigjenda, samvinnu við sveitarfélög og áherslu á að nauðsynlegar upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar hverju sinni.

Þátttaka fólks af erlendum uppruna eykur fjölbreytileika, eflir íslenskt samfélag og menningu og er ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Tryggja þarf að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu. Styðja verður sérstaklega við börn af erlendum uppruna í skólakerfinu. Í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna á Ísland á að taka vel á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í hættu og eiga rétt á að komast í skjól. Mansal, félagsleg undirboð og misnotkun á erlendu starfsfólki á aldrei að viðgangast á Íslandi.

Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Við leggjum því áherslu á að styðja við frjótt umhverfi um allt land, þannig að grónar atvinnugreinar geti dafnað og nýskapandi hugsun laðað fram ný tækifæri. Jafnframt viljum við tryggja að jafnræði ríki í aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntunartækifærum og nýta til þess fjarþjónustu þar sem við á. Lögð verður áhersla á uppbyggingu öflugra og sjálfbærra sveitarfélaga sem hafa burði til að standa undir þeirri þjónustu sem íbúar eiga rétt á. Beitt verður fjárhagslegum hvötum til að stuðla að sameiningu. Auk þess að tryggja samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnustarfsemi munum við hvetja til klasasamstarfs einkaaðila við hið opinbera á lykilstöðum á landsbyggðinni. Sett verður markmið um hlutfall opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins.

Við munum halda áfram uppbyggingu og viðhaldi á samgöngukerfinu til að auka öryggi fólks á vegum úti, stytta ferðatíma og draga úr útblæstri í samræmi við loftslagsmarkmið. Tekjustofnar ríkisins vegna samgangna verða lagaðir að markmiðum um orkuskipti. Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu og fjármögnun á hágæða almenningssamgöngum og öðrum samgöngumannvirkjum á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Tilteknum þjóðhagslega arðsömum framkvæmdum, sem bæta munu lífsgæði fólks og stækka atvinnu- og þjónustusvæði, verður flýtt á grundvelli fjölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila.

Við ætlum að stuðla að heilbrigðu samfélagi

Við horfum á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi. Það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Heilbrigði snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu með því að nýta alla þá þekkingu og öll þau úrræði sem eru til staðar í samfélaginu, innan heilbrigðisþjónustunnar, skólanna og íþróttahreyfingarinnar svo eitthvað sé nefnt.

Aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál. Mikilvægt er að heilbrigðiskerfið þjóni hverjum og einum og að tryggt sé með miðlægum biðlistum að þjónusta sé veitt innan skilgreinds biðtíma. Þróa verður heilbrigðiskerfið í takt við breytta samsetningu þjóðarinnar, mönnunarþörf og lífsstílssjúkdóma. Haldið verður áfram að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi.

Staða og hlutverk Landspítalans sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verður styrkt og sérstök áhersla lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar. Heilbrigðisstofnanir verða styrktar til að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og aðgengi jafnað um land allt.

Við ætlum að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Geðheilsuteymi verða efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta þjónustu sem er miðuð að ólíkum þörfum.

Við einsetjum okkur að aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi. Stuðningur við börn og aðgengi að góðri þjónustu hefur jákvæð áhrif á þroska og velsæld og stuðlar að jöfnum tækifærum út í lífið. Þátttaka barna og ungmenna í íþrótta- og frístundastarfi er mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti þeirra og leggjum við áherslu á að allir geti tekið þátt í slíku starfi. Unnið verður að því að tryggja betur fjárhagslega stöðu barnafólks í gegnum skatta og bótakerfi og verður sérstaklega hugað að því að efla barnabótakerfið.

Jafnrétti kynjanna er mikilvægur þáttur í heilbrigðu samfélagi og verður áfram forgangsmál sem og auknar réttarbætur í málefnum hinsegin fólks. Auk aðgerða á vinnumarkaði til að draga úr kynbundnum launamun verða jafnréttismál ávallt í forgrunni við ákvarðanatöku. Áfram verður unnið markvisst að aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi, réttarstaða brotaþola verður bætt og forvarnir og fræðsla efldar.

Við ætlum að efla íslenska menningu og ferðaþjónustu

Menning og listir eru bæði uppspretta og birtingarmynd fjölbreytts og sterks samfélags. Við ætlum áfram að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. Heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér áskoranir fyrir þau sem vinna í menningu og ferðaþjónustu og því blasa svipuð úrlausnarefni við á þeim sviðum á næstu misserum.

Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar. Sérstök áhersla verður lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi með auknu framboði af nýju námsefni á íslensku og með því að hlúa að barnamenningu.

Frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum.

Öflugt lista- og menningarlíf er mikilvægur hluti samfélaganna hringinn í kringum landið. Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands sem ferðamannalands er fólginn í sterku lista- og menningarlífi og brýnt að hlúa vel að íslenskri frumsköpun, meðal annars með því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Ráðist verður í uppbyggingu framtíðarhúsnæðis Listaháskóla Íslands (LHÍ). Samhliðaer mikilvægt að fram fari greining á framtíðarfyrirkomulagi LHÍ hvað varðar rekstrarform og skólagjöld. Einnig verður ráðist í stefnumörkun og heildarendurskoðun á tónlistarfræðslu á öllum skólastigum. Loks verður hlúð að safnastarfi með aukinni stafrænni skráningu safnakosts og áherslu á sýningar og miðlun sem víðast í samfélaginu.

Kvikmyndagerð hefur orðið sífellt mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi síðustu ár. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Við ætlum að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.

Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Áfram verður unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna.

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar

Stóru áskoranirnar

Efnahagur og ríkisfjármál

  • Það verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á kjörtímabilinu.
  • Ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum til að stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu og góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins til að stuðla að nauðsynlegu samspili þessara þátta.
  • Almannaþjónustan verður efld frekar og skattar lækkaðir í samræmi við þróun ríkisfjármála með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, þar sem m.a. verður sérstaklega litið til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
  • Styrkur ríkisfjármála verður byggður upp á ný á grunni aukinnar verðmætasköpunar og stuðlað að sjálfbærni í rekstri ríkisins til lengri tíma. Ýtt verður undir vaxtargetu hagkerfisins með öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun í því skyni að festa nýja stoð efnahagslífsins enn betur í sessi.
  • Fjármálaráð verður styrkt til að auka getu ráðsins til að leggja sjálfstætt, hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum.
  • Gerð verður úttekt á starfsemi Seðlabanka Íslands og mat lagt á hvernig tekist hefur til við að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits auk þess sem litið verður til reynslunnar af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem og skipulagi, verkaskiptingu og valdsviði nýrrar stofnunar.

Loftslagsmál

  • Hugmyndafræði sjálfbærni og réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni verður leiðarstef ríkisstjórnarinnar í yfirstandandi umbreytingum vegna loftslagsvárinnar og tæknibreytinga sem hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins. Þessum markmiðum sem og framkvæmd og eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum verður fylgt eftir í samvinnu forsætisráðherra og ráðherra umhverfismála til að auka samhæfingu, samvinnu og slagkraft innan Stjórnarráðsins. Sett verður samræmd stefna um sjálfbæra þróun í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
  • Vísindaleg þekking er undirstaða allra aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum. Tölfræðiupplýsingar, upplýsingagjöf, fræðsla og miðlun um loftslagsmál verður efld.
  • Ísland verði lágkolefnishagkerfi og nái kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.
  • Sett verður sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við 2005.
  • Lögð verður fram þingsályktun um orkuskipti og útfösun jarðefnaeldsneytis, þar sem settar verða fram aðgerðir og grunnur lagður að því að fullum orkuskiptum verði náð eigi síðar en 2040 og Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.
  • Stjórnvöld munu í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira. Jákvæðum fjárfestingahvötum og skilvirkum ívilnunum verður beitt samhliða gjaldtöku á losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Sett verða metnaðarfull markmið um samdrátt í losun vegna landnotkunar og áhersla lögð á að efla náttúrumiðaðar lausnir, m.a. með hvötum til aukinnar skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis. Efla þarf rannsóknir á losun og bindingu kolefnis vegna samspils landnýtingar og loftslagsmála.
  • Ríkisstjórnin mun ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.
  • Ísland á að verða vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Stutt verður við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis, uppbyggingu hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta.
  • Unnin verður áætlun um að efla og þróa rannsóknir og þekkingu á sviði grænna lausna í þágu atvinnulífs og alþjóðlegra verkefna í samstarfi við alþjóðlega aðila. Regluverk verður endurskoðað með hliðsjón af þessum markmiðum og tryggt að allar atvinnugreinar geti tekið þátt í nauðsynlegum loftslagsverkefnum.
  • Aðgengi að fjármagni vegna loftslagsverkefna þarf að tryggja, endurskilgreina þarf Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og veita viðbótarfjármagni inn í Tækniþróunarsjóð fyrir grænar lausnir.
  • Stjórnsýsla loftslagsmála verður styrkt og hlutverk Loftslagsráðs tekið til endurskoðunar með aukinni áherslu á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf auk aðhalds- og eftirlitshlutverks gagnvart stjórnvöldum.
  • Aðgerðaáætlun um samfélagslega aðlögun að loftslagsbreytingum verður unnin á grunni fyrirliggjandi aðlögunarstefnu.

Stafrænar umbreytingar

  • Unnið verður markvisst að því að efla net- og fjarskiptaöryggi.
  • Áhersla verður lögð á að auka traust almennings á upplýsingatækni, persónuvernd og mikilvægi tjáningarfrelsis. Þá verður lögð áhersla á að styrkja stafræna færni fólks og getu til að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar.
  • Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland sé meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu. Markmiðið er að einfalda stjórnsýslu, bæta þjónustu við almenning og auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna.
  • Unnið verður áfram að samræmdri úrvinnslu, geymslu og framsetningu opinberra gagna ásamt því að stuðla að greiðara aðgengi almennings að gögnum.
  • Unnið verður að útgáfu fullgildra opinberra rafrænna persónuskilríkja.

Sterkt samfélag

Heilbrigðismál

  • Ný heilbrigðisstefna til 2030 markar stefnu fyrir heilbrigðiskerfið á komandi árum.
  • Þjónustutengd fjármögnun verður innleidd í auknum mæli í heilbrigðiskerfið, settir upp miðlægir biðlistar og tryggt að þjónusta sé veitt innan tiltekins ásættanlegs biðtíma.
  • Heilsugæslan verður styrkt enn frekar sem fyrsti viðkomustaður notenda og byggð upp þverfagleg teymisvinna þar sem unnið er að stöðugum umbótum. Heilsugæslan verður leiðandi þátttakandi í heilsueflingu og aðgerðaáætlun um lýðheilsu og forvarnir. Þjónusta verður aukin og heilsugæslustöðvum fjölgað til að minnka álagið á aðra viðkomustaði á borð við bráðamóttökuna.
  • Staða og hlutverk Landspítalans sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verður styrkt. Skipuð verður fagleg stjórn yfir spítalann að norrænni fyrirmynd.
  • Aðgengi allra landsmanna að sérfræðiþjónustu verður bætt í samráði við heilbrigðisstofnanir í öllum umdæmum.
  • Áfram verður dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga, með áherslu á viðkvæma hópa.
  • Geðheilbrigðisþjónusta verður áfram efld fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Sérstök áhersla verður lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnarskyni. Geðheilsuteymi um land allt verða efld, áhrif notenda á þjónustuna aukin og stefnt að því að þjónustan sé fjölbreytt og miðuð að ólíkum þörfum.
  • Sjúkratryggingar Íslands verða efldar sem kaupandi og kostnaðargreinandi heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins.
  • Unnið verður að innleiðingu stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustu og ný tækni nýtt til að auka gæði þjónustu og hagkvæmni. Stuðlað verður að nýsköpun og ýtt undir samstarf opinberra aðila og einkaaðila á sviði tæknilausna. Fjarheilbrigðisþjónusta verður sérstaklega efld.
  • Innleiddar verða stafrænar samræmdar sjúkraskrár sem verða aðgengilegar sérhverjum notanda heilbrigðisþjónustunnar og viðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum í samræmi við óskir hans.

Íþróttir, æskulýðsstarf og lýðheilsa

  • Unnið verður að því í samstarfi við sveitarfélög að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu.
  • Stutt verður við íþróttahreyfinguna til að jafna stöðu karla og kvenna í íþróttum.
  • Unnið verður áfram að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga.
  • Áfram verður unnið með félagasamtökum að því að efla umgjörð um afreksstarf íþróttafólks, þar sem verður m.a. litið til eflingar afreksíþróttasjóðs og ferðajöfnunarsjóðs.
  • Sett verður stefna um öflugar rafíþróttir hér á landi, ásamt því að efla skipulagt rafíþróttastarf og byggja upp innviði.

Eldra fólk

  • Stefna í þjónustu við eldra fólk frá 2021 verður grundvöllur vinnu við aðgerðaáætlun til fimm ára í samstarfi við sveitarfélög, samtök eldri borgara og þjónustuaðila, jafnt opinbera og sjálfstætt starfandi. Skipuð verður verkefnisstjórn í breiðu samráði til að vinna að þessum markmiðum og fylgja eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið, m.a. með drögum að frumvörpum og þingsályktun. Einstaklingurinn á að vera hjartað í kerfinu og hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu.
  • Áfram verða þróaðar fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima, svo sem með sveigjanlegri dagþjálfun, og nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Sérstaklega verður lögð áhersla á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika.
  • Eldra fólki verður gert kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði, m.a. með auknum sveigjanleika í starfslokum. Horft verður til aukins sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera.
  • Afkoma ellilífeyrisþega verður áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa. Almannatryggingakerfi eldri borgara verður endurmetið og frítekjumark atvinnutekna tvöfaldað um næstu áramót. Horfa þarf til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara.
  • Mæta þarf sérstaklega þeim sem búa við háan húsnæðiskostnað með auknum stuðningi og auka framboð af ódýru leiguhúsnæði fyrir aldraða í samstarfi við sveitarfélögin og samtök aldraðra, m.a. í almenna íbúðakerfinu.

Örorka

  • Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.
  • Örorkulífeyriskerfið verður einfaldað, dregið úr tekjutengingum og það gert skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Breytingarnar verða innleiddar í áföngum og þau sem eru með fullt örorkumat við upptöku á nýju kerfi hafa val um hvort þau færast yfir í nýja kerfið.
  • Val um yfirfærslu í nýtt kerfi hafi ekki í för með sér áhættu fyrir örorkulífeyrisþega enda geti þau ákveðið að snúa aftur til fyrra kerfis.
  • Þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkað verður auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þeirra sé ógnað. Þjónusta og stuðningur til þátttöku og endurhæfingar verða tryggð.
  • Einstaklingum sem missa starfsgetuna verður í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á starfsgetu.
  • Unnið verður markvisst að því að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Menntunartækifæri verða tryggð fyrir fatlað fólk.
  • Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun.
  • Tryggja þarf jafnræði í þjónustu við fatlað fólk, m.a. með samráði ríkis og sveitarfélaga um endurmat á kostnaði við málaflokk fatlaðra og með því að festa í sessi framtíðarfyrirkomulag NPA-þjónustu.

Börn

  • Úrræði fyrir börn og barnafjölskyldur verða endurskipulögð í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Tryggt verður að börn og barnafjölskyldur fái nauðsynlega þjónustu innan tiltekins ásættanlegs biðtíma. Staða barna og barnafjölskyldna sem lenda í áföllum verður styrkt.
  • Áætlun með fyrirbyggjandi aðgerðum í þágu barna verður innleidd.
  • Lokið verður við heildarendurskoðun barnaverndarlaga.
  • Staða langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra verður bætt með nýju fyrirkomulagi umönnunarstyrks og umönnunargreiðslna. Foreldrum sem missa barn verður tryggt sorgarleyfi.
  • Unnið verður að því í samvinnu við sveitarfélögin að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla. Samhliða fari fram vinna við að greina og endurskoða þjónustu ríkis og sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur fyrstu ár ævinnar með það að markmiði að auka þjónustu við þennan hóp.
  • Barnabótakerfið verður áfram styrkt og útvíkkað með það að markmiði að jafna kjör barnafjölskyldna.

Húsnæðismál

  • Húsnæðismál og skipulagsmál verða færð í nýtt innviðaráðuneyti til að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum og aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði. Áætlanir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum verða samþættar og lagðar fram samhliða og þannig tryggt að samgöngur séu í þágu byggðar og loftslags til að uppfylla ferðaþörf og skapa sjálfbær hverfi og sjálfbærar byggðir.
  • Ráðist verður í sérstakt átak til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og eldra fólk innan almenna íbúðakerfisins.
  • Húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda verður bætt, m.a. með traustri lagaumgjörð, samræmdri umsóknargátt um húsnæðisbætur og aðgengilegri upplýsingagjöf.
  • Horft verður til áframhaldandi uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu og framhalds hlutdeildarlána.
  • Stuðla þarf að nægilegu framboði byggingarlóða til lengri tíma í samvinnu við sveitarfélög. Tryggt verður að fyrir liggi greinargóðar rauntímaupplýsingar um húsnæðismarkað, framboð íbúða og stöðu í skipulags- og byggingamálum á öllu landinu.
  • Stuðlað verður að vistvænni mannvirkjagerð á Íslandi og samdrætti í losun frá byggingariðnaði.
  • Unnið verður að því að endurskoða regluverk, innleiða stafræna stjórnsýslu í auknum mæli og einfalda umgjörð um byggingariðnað í því skyni að lækka byggingarkostnað án þess að það sé á kostnað gæða og algildrar hönnunar.

Jafnréttismál

  • Aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota verður áfram fylgt eftir en hún gildir til 2022. Hafist verður handa við að vinna nýja áætlun sem taki við af henni þegar í upphafi 2023.
  • Uppfært frumvarp til laga um styrkari réttarstöðu brotaþola verður lagt fram.
  • Rík áhersla verður lögð á forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun um aðgerðir fyrir 2021–2025, í samræmi við þingsályktun þess efnis.
  • Ríkisstjórnin mun halda áfram því verki sem hafið var á fyrra kjörtímabili og koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með sérstakri aðgerðaáætlun og réttarbótum.

Málefni útlendinga

  • Mótuð verður skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.
  • Rík áhersla verður lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra, m.a. gegnum skóla- og frístundastarf og með auknu aðgengi að íslensku- og samfélagsfræðslu. Horft verði til möguleika á móðurmálsfræðslu og túlkaþjónusta efld einkum til að tryggja aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegum réttindum.
  • Lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga verða tekin til endurskoðunar með það að markmiði að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku og auka skilvirkni með einföldun ferla. Þá verði þeim sem hér fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið veitt undanþága frá kröfu um atvinnuleyfi. Haft verður samráð við aðila vinnumarkaðarins í þessari vinnu.
  • Umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verður einfaldað.
  • Kerfi og stofnanir sem meta einstaklingsbundnar aðstæður og hagsmuni eiga að vera skilvirk, laga- og regluverk skýrt og mannúðlegt og framkvæmd fullnægjandi. Rýna þarf framkvæmd og stytta málsmeðferðartíma í núverandi kerfi, þannig að tryggja megi hraða og skilvirka afgreiðslu mála í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og koma í veg fyrir langvarandi óvissu hjá einstaklingum og fjölskyldum.
  • Áfram verður aukið við móttöku kvótaflóttafólks með áherslu á einstaklinga og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Samræmd móttaka fólks á flótta í samstarfi ríkis og sveitarfélaga óháð því á hvaða forsendum fólk kemur til landsins verður áfram styrkt.
  • Auka þarf traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda.

Lífeyrismál

  • Ríkisstjórnin mun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins vinna að því að renna styrkari stoðum undir lífeyriskerfið og stuðla að aukinni sátt um uppbyggingu og hlutverk ólíkra hluta þess.
  • Grænbók um lífeyrismál verður unnin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði á fyrri hluta kjörtímabilsins í því skyni að skapa grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanir um lífeyriskerfið og framtíðarþróun þess með heildstæðum hætti. Meðal annars verður horft til einföldunar kerfisins og fjallað um grundvallarforsendur varðandi hlutverk, uppbyggingu, sjálfbærni og umfang sjóðanna í efnahagslífinu, uppbyggingu réttinda og samspil milli ólíkra stoða lífeyriskerfisins, nauðsynlega hækkun lífeyrisaldurs og sveigjanleika til töku lífeyris í samhengi við hækkandi lífaldur, tryggingafræðilegar forsendur, fjárfestingarheimildir, starfsumhverfi og eftirlit.
  • Lagður verður grunnur að lögfestingu 15,5% lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og útfærslan unnin að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Einnig verður litið til þess að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða og tryggja jafnræði réttinda gagnvart almannatryggingum.
  • Mikilvægt er að stuðla að því að lífeyrissjóðirnir geti ávaxtað eignir sínar með fjölbreyttum, ábyrgum og öruggum hætti að teknu tilliti til vaxandi umsvifa þeirra í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum.
  • Horfa þarf m.a. til þess hvernig auka megi þátttöku sjóðanna í innviðafjárfestingum til að flýta fyrir nauðsynlegum opinberum framkvæmdum sem og nýsköpun og grænum lausnum til að takast á við loftslagsvána.
  • Stefnt verður að því að finna leiðir til auka valfrelsi í viðbótarlífeyrissparnaði með fjölgun fjárfestingakosta.
  • Kannað verður í samstarfi við stafrænt Ísland hvernig stuðla megi að stafrænni væðingu í lífeyriskerfinu með greiðari samskiptum milli stofnana til að tryggja betri og samræmdari þjónustu og aðgengi notenda að upplýsingum.

Samgöngumál

  • Framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta verður mótað og innleitt á kjörtímabilinu.
  • Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu og fjármögnun hágæða almenningssamgangna og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
  • Unnið verður að því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að efla almenningssamgöngur á landsbyggðinni.
  • Undirbúningi Sundabrautar verður framhaldið með það að markmiði að hún opni fyrir umferð eigi síðar en 2031.
  • Stuðlað verður að almenningssamgöngum með endurnýjanlegum orkugjöfum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar í samvinnu við sveitarfélögin.
  • Áfram verður stutt við orkuskipti í samgöngum um land allt, þ.m.t. í þungaflutningum, ferjum og höfnum, og net hleðslustöðva þétt til stuðnings orkuskiptum í dreifðum byggðum og ferðaþjónustu.
  • Ráðist verður í skilgreindar þjóðhagslega arðsamar flýtiframkvæmdir í samgöngum á grundvelli fjölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila.
  • Mótuð verður áætlun um uppbyggingu og fjármögnun jarðganga og horft til reynslu nágrannaþjóða. Stofnað verður opinbert félag um jarðgangagerð.
  • Markvisst verður unnið að lagningu bundins slitlags á tengivegi til að styðja við atvinnu- og byggðaþróun og auðvelda skólaakstur á svæðum sem nú búa við malarvegi.
  • Loftbrú verður áfram mikilvægur þáttur almenningssamgangna.
  • Tryggður verður samrekstur millilandaflugvalla um land allt í einu kerfi.
  • Stigin verða skref til að hefja sjálfbæra lífolíuframleiðslu til að flýta orkuskiptum í fiskiskipum og unnið að því að greiða götu verkefna á því sviði. Stutt verður við möguleg þróunarverkefni í orkuskiptum í innanlandsflugi.

Byggðamál

  • Haldið verður áfram að styðja við nýsköpun, m.a. með regluverki og umhverfi sem styður við stofnun og rekstur fyrirtækja, ekki síst í fámennari byggðum. Samhliða verður unnið að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.
  • Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.
  • Sett verður markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni.
  • Stutt verður við starfsaðstöðu og klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni.
  • Stutt verður við orkuskipti á landsvísu með áherslu á að horfa til orkutengdra verkefna og grænnar orkuframleiðslu. Byggðaáætlun styðji við græn umskipti um allt land.
  • Mótuð verður stefna þar sem svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni er skilgreint og stuðlar að uppbyggingu sem geti boðið upp á fjölbreytileika í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.
  • Beita þarf hagrænum hvötum í byggðaþróun, m.a. í gegnum Menntasjóð námsmanna.
  • Stutt verður við þekkingarmiðstöðvar, rannsóknarsetur á landsbyggðinni, náttúrustofur og fjarheilbrigðisþjónustu í smærri byggðalögum.
  • Framlög verða áfram tryggð til jöfnunar húshitunar- og raforkukostnaðar heimila milli dreifbýlis og þéttbýlis.
  • Tryggð verður geta og fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar háhraðaneta þar sem markaðsaðilar sinna ekki þeirri þjónustu eða öryggissjónarmið krefjast þess.

Sveitarfélög

  • Ríkisstjórnin leggur áherslu á að stuðla að uppbyggingu öflugra og sjálfbærra sveitarfélaga þar sem samfélagslegir og fjárhagslegir hvatar eru til sameiningar.
  • Unnið verður í samræmi við samþykkta þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga til ársins 2033 og aðgerðaráætlun um innleiðingu hennar uppfærð til næsta fimm ára tímabils.
  • Þá munu stjórnvöld styðja við stafræna þróun sveitarstjórnarstigsins.
  • Efla þarf enn frekar samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviðum loftslags- og umhverfismála þar sem þau gegna lykilhlutverki, s.s. í innleiðingu hringrásarhagkerfisins, á sviði fráveitumála, mengunarvarna, vatnsverndar, náttúruverndar og verndunar líffræðilegs fjölbreytileika. Samþætta þarf betur skipulagsáætlanir sveitarfélaga og svæðisskipulagsstefnu til að ná betri nýtingu á innviðum og þjónustu, styðja við loftslagsmarkmið, fá betri sýn yfir framboð á lóðum og húsnæði og styðja við stjórnsýslu skipulagsmála.
  • Mótuð verður aðgerðaáætlun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, m.a. með það að markmiði að fækka „gráum svæðum“ í samstarfi ríkis og sveitarfélaga til að tryggja skilvirkari og betri þjónustu.
  • Lagaleg staða landshlutasamtaka sveitarfélaga verður skýrð gagnvart þeim verkefnum sem þau sinna og landshlutarnir efldir, m.a. í gegnum sóknaráætlanir landshluta.
  • Rannsóknir, vöktun, hættumat og viðbrögð vegna náttúruvár verða efld á grundvelli yfirstandandi þarfagreiningar í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.
  • Lögð verður áhersla á að nýta tækifæri í samrekstri á stafrænum lausnum í gegnum Ísland.is. Leitað verður leiða til þess að tryggja sveitarfélögum auknar tekjur af komu ferðamanna.

Jarðamál og mikilvægir innviðir

  • Ljúka þarf við heildarendurskoðun á lögum og reglum um eignarráð, ráðstöfun og nýtingu fasteigna, með áherslu á land og landgæði. Fyrir hendi þurfa að vera upplýsingar um grundvallaratriði og stýritæki til að tryggja samræmi við stefnu stjórnvalda, svo sem í landbúnaði, byggðamálum, auðlindanýtingu og náttúruvernd.
  • Eignarhald á landi þarf að vera gagnsætt og áhersla er lögð á hraða uppbyggingu Landeignaskrár, í samvinnu við sveitarfélög og landeigendur. Hugað verður að frekari ráðstöfunum til að vernda gott landbúnaðarland og flýta fyrir flokkun lands með tilliti til ræktunarmöguleika.
  • Stefna verður mörkuð um kolefnisbindingu og endurheimt vistkerfa á þjóðlendum og jörðum í opinberri eigu. Haft verður samráð við heimamenn á hverjum stað. Skilgreina þarf mikilvægar jarðir eða jarðarhluta með tilliti til náttúru- og minjaverndar og endurheimtar vistkerfa.
  • Lagareglur um rýni á tilteknum fjárfestingum erlendra aðila með hliðsjón af þjóðaröryggi og allsherjarreglu verða endurskoðaðar og styrktar.
  • Eigendastefnu ríkisins um jarðir og þeim viðmiðum sem þar eru lögð til við kaup og sölu á jörðum verður framfylgt.
  • Áfram verður unnið að endurskoðun á verkefnum Þjóðskrár og samlegð þeirra við verkefni annarra stofnana.

Menntamál

  • Lög verður áhersla á fjölbreytt námsframboð á öllum skólastigum í takt við menntastefnu til 2030 með nýsköpun í fyrirrúmi og fjölbreytni aukin í alþjóðlegu námi.
  • Fjölga þarf fagfólki á öllum skólastigum með áframhaldandi hvötum til að sækja kennaranám og möguleikum til starfsþróunar.
  • Meta þarf mönnunarþörf til lengri tíma í heilbrigðis- og menntakerfinu og skoða í því samhengi hvort breyta þurfi starfsumhverfi og fyrirkomulagi grunnmenntunar til að mæta vaxandi þörf til framtíðar, m.a. með hliðsjón af aðstæðum í dreifðum byggðum.
  • Efla þarf íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka símenntun í takt við breyttar aðstæður.
  • Stuðningur við börn af erlendum uppruna verður aukinn í skólakerfinu.
  • Sérstök áhersla verður lögð á að rýna stöðu kynjanna í skólakerfinu og koma til móts við ólíkar þarfir þeirra.
  • Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig.
  • Áfram verður unnið að eflingu starfs- og tæknináms og fjölgun raunog tæknigreinamenntaðra.
  • Byggðar verða nýjar höfuðstöðvar fyrir Tækniskólann í Hafnarfirði og unnið að eflingu iðn- og verknáms um land allt.
  • Fjármögnun framhaldsskóla verður tryggð sem og fjármögnun háskóla í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs.
  • Ráðist verður í uppbyggingu framtíðarhúsnæðis Listaháskóla Íslands í Tollhúsinu. Samhliða fer fram greining á framtíðarfyrirkomulagi LHÍ hvað varðar rekstrarform og skólagjöld.
  • Skipulag náms sem tengist matvælaframleiðslu á framhalds- og háskólastigi verður endurskoðað með það að markmiði að styrkja bæði menntun og rannsóknir.
  • Ráðist verður í stefnumörkun og heildarendurskoðun á tónlistarfræðslu á öllum skólastigum.
  • Mörkuð verður stefna um íslenskt táknmál með sérstakri áherslu á málumhverfi táknmálstalandi barna og námsefni á leik- og grunnskólastigi.
  • Sí- og endurmenntun verður efld og löggjöf um framhaldsfræðslu endurskoðuð í breiðu samráði til að tryggja að framhaldsfræðslukerfið sé í stakk búið til að takast á við samfélagsþróun, m.a. vegna loftslagsbreytinga og tæknivæðingar á vinnumarkaði.
  • Markáætlun um samfélagslegar áskoranir á sviði máltækni, umhverfismála og sjálfbærni, tæknibreytinga á vinnumarkaði og heilbrigðisvísinda verður framhaldið allt kjörtímabilið.
  • Gert verður átak í netvæðingu náms og aðgengi að stafrænu háskólanámi á Íslandi, sem eykur aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum. Rannsóknarstarf um allt land verður eflt.
  • Jafnréttis- og kynfræðsla og ofbeldisforvarnir verða efldar í grunnog framhaldsskólum.
  • Áfram verður markvisst unnið að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Menningarmál

  • Áfram verður unnið að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna með sérstakri áherslu á að starfslaunin tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum / við skapandi greinar.
  • Umhverfi tónlistargeirans á Íslands verður endurskoðað í framhaldi af skýrslu starfshóps þar um.
  • Áfram verður unnið að þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu, með það að markmiði að setja á laggirnar Þjóðaróperu.
  • Staða einkarekinna fjölmiðla verður metin áður en núverandi stuðningskerfi rennur út og ákveðnar aðgerðir til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og öflugt almannaútvarp.
  • Unnið verður að því að koma menningararfi þjóðarinnar yfir á stafrænt form til að tryggja varðveislu og aðgengi almennings.
  • Sett verður stefna um rafræna langtímavörslu skjala og rafrænir innviðir opinberrar skjalavörslu endurnýjaðir til að mæta þessum kröfum.
  • Menningarsókn, aðgerðaáætlun til 2030, verður hrint í framkvæmd.
  • Barnamenningarsjóður verður festur í sessi.

Löggæsla

  • Mikilvægt er að Ísland sé virkur þátttakandi í alþjóðlegri samvinnu vegna netglæpa sem eru skipulagðir þvert á landamæri ríkja auk þess að sinna öflugu forvarna- og rannsóknarstarfi á þessu sviði.
  • Mönnun löggæslunnar þarf að vera í takti við þarfir samfélagsins. Gera þarf tímabundið átak til að fjölga í lögreglunámi á háskólastigi og tryggja þannig aukið öryggi og fagmennsku innan lögreglunnar. Með fjölgun menntaðra lögreglumanna er unnt að bæta þjónustu, stytta rannsóknartíma og auka gæði lögreglustarfa.
  • Endurskoða á bæði sjálfstætt innra og ytra eftirlit með störfum lögreglu. Horft verður til annarra Norðurlandaþjóða og þeirra aðgerða sem best hafa reynst þar.
  • Haga þarf skipulagi og fjölda lögregluembætta og deilda með þeim hætti að sinna megi löggæslustörfum á sem skilvirkastan hátt um allt land.
  • Unnið verður að umbótum í þjónustu og rekstri sýslumanna í samræmi við útgefna framtíðarsýn þar um, auk þess að ráðast í hagræðingu verkefna samhliða stafrænni þróun.
  • Ráðist verður í framhald aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins þegar hún rennur sitt skeið 2022. Þar verður m.a. litið til atriða er varða sáttamiðlun og styttri málsmeðferðartíma.
  • Áfram verður unnið að styttingu boðunarlista í fangelsi og haldið áfram við uppbyggingu á Litla-Hrauni. Stuðlað verður að auknu aðgengi fanga að fjölbreyttri menntun, virkni og stuðningi að afplánun lokinni.

Atvinnulíf, verðmætasköpun og samkeppnishæfni

Tekjuöflun, regluverk og opinbert eftirlit

  • Skattmatsreglur verða endurskoðaðar og komið í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga. Enn fremur verður regluverk í kringum tekjutilflutning tekið til endurskoðunar til að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.
  • Skattrannsóknir verða efldar samhliða því að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að heilbrigðari vinnumarkaði. Ísland styður fyrirætlanir OECD um alþjóðlegan lágmarksskatt og samstarf ríkja gegn skattaundanskotum og skattaskjólum og mun beita sér með virkum hætti í þeim efnum.
  • Stefnt verður að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu og verða kannaðir möguleikar á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem getur aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. Meginmarkmiðið er að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
  • Stjórnvöld munu halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða.

Vinnumarkaðsmál

  • Stuðlað verður að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins.
  • Styrkja þarf hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.
  • Til að sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði verða starfskjaralög endurskoðuð og varnir gegn kennitöluflakki styrktar með viðeigandi lagabreytingum.
  • Farið verður í aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun hjá hinu opinbera.
  • Skoðuð verða áhrif loftslags- og tæknibreytinga á íslenskan vinnumarkað og settar fram tillögur um viðbrögð og aðgerðir til að mæta þeim.
  • Byggt verður á aðgerðum í aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna varðandi úttekt, forgangsröðun og áherslur til umbóta í sí- og endurmenntunarkerfinu til að tryggja tækifæri fólks til menntunar.
  • Löggjöf og regluverk á sviði vinnumarkaðar verður skoðað í samhengi við þróun vinnumarkaðarins og breytinga á ráðningarformi milli launafólks og atvinnurekenda.

Orkumál og náttúruvernd

  • Lokið verður við þriðja áfanga rammaáætlunar. Kostum í biðflokki verður fjölgað. Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verða endurskoðuð frá grunni. Markmiðið er að tryggja nýtingu orkuauðlinda með hagkvæmum og sjálfbærum hætti.
  • Sérstök lög verða sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verður lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi. Mikilvægt er að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Í því samhengi verður tekin afstaða til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu. Stefna verður mótuð um vindorkuver á hafi.
  • Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Áhersla verður lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum fjölgað. Um atvinnustarfsemi í nýjum þjóðgarði fer samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem eru í samræmi við meginreglur nýrra laga um atvinnustarfsemi í landi ríkisins.
  • Lokið verður við endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni.
  • Áhersla verður lögð á vinnu við skipulag haf- og strandsvæða.
  • Lokið verður við heildarendurskoðun laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
  • Horft verður til lagabreytinga til að tryggja skilvirkari málsmeðferð innviðaframkvæmda á borð við flutningskerfi raforku, m.a. á grundvelli fyrirliggjandi vinnu þar um.
  • Lokið verður við innleiðingu framtíðarlausna til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar.
  • Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir stórátaki í samvinnu við sveitarfélög í frárennslismálum þannig að þau standist ítrustu kröfur náttúruverndar um allt land eigi síðar en 2028. Þá verður stuðlað að nýsköpun og notkun helstu tækninýjunga við endurvinnslu og flokkun sorps. Byggt verður undir endurvinnslu og hringrásarhagskerfi með jákvæðum hvötum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum.

Iðnaður og nýsköpun

  • Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar verða framlengdar og farið yfir framkvæmd þeirra og eftirlit. Tímabundin hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna kostnaðar sem fellur til við rannsóknir og þróun verður gerð varanleg.
  • Efla þarf samkeppnissjóði á sviði grunnrannsókna og tækniþróunar og halda áfram þróun vísisjóða.
  • Ívilnanir vegna grænna fjárfestinga verða framlengdar í því skyni að styðja við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar og ýta undir áframhaldandi fjárfestingu.
  • Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Stutt verður enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.
  • Auka verður svigrúm og skilvirkni í ráðningu erlendra sérfræðinga og auðvelda íslenskum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að ráða fólk með sérþekkingu frá löndum utan EES-svæðisins.
  • Ríkisstjórnin ætlar að nýta nýsköpun í auknum mæli til lausna á viðfangsefnum hins opinbera. Skapaðar verða forsendur fyrir opinbera aðila til þess að vinna að jafnaði með nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum í því að hanna og þróa lausnir sem geta leyst viðfangsefni hins opinbera á betri og hagkvæmari hátt en gert er.
  • Tímabundnar heimildir lífeyrissjóða til aukinnar fjárfestingar í nýsköpunar- og vaxtarsjóðum verða gerðar varanlegar.
  • Haldið verður áfram að styrkja uppbyggingu nýsköpunar á landsbyggðinni með Lóu – nýsköpunarstyrkjum.
  • Löggjöf um skattalega meðferð kauprétta og hlutabréfa hjá nýsköpunarfyrirtækjum verður endurskoðuð þannig að þeim verði gert kleift að keppa um starfsfólk, stjórnendur og ráðgjafa með því að bjóða hlutdeild í framtíðarávinningi með hagkvæmum hætti.

Ferðaþjónusta

  • Framtíðarsýn ferðaþjónustu til 2030, sem mótuð var á síðasta kjörtímabili, verður fylgt eftir með aðgerðaáætlun sem styður við bæði langtímamarkmiðin og áhersluatriðin 12 sem henni fylgdu.
  • Horft verður til þess að framlengja „Saman í sókn“, markaðsátak stjórnvalda, greinarinnar og Íslandsstofu, til að stuðla að nauðsynlegri viðspyrnu ferðaþjónustunnar í kjölfar Covid-19.
  • Markviss skref verða tekin til orkuskipta í ferðaþjónustu, m.a. með stuðningi við uppbyggingu hleðslunets um land allt, rafvæðingu bílaleigubíla og grænni tengingu við Keflavíkurflugvöll.
  • Stutt verður eftir föngum við frekari dreifingu ferðamanna um landið allt árið um kring til að efla atvinnusköpun og rekstrargrundvöll ferðaþjónustufyrirtækja. Efla þarf rannsóknir, nýsköpun og menntun í ferðaþjónustu.
  • Samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar verður fyrirkomulag gjaldtöku í greininni tekið til skoðunar. Horft verður til þess að breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði. Unnið verður að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.

Sjávarútvegsmál

  • Skipuð verður nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.
  • Fylgt verður eftir tillögum starfshóps um græn skref í sjávarútvegi til að flýta eins og kostur er orkuskiptum í sjávarútvegi og ná markmiðum um samdrátt í losun.
  • Mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.
  • Áfram verður stutt við öflugt styrkjakerfi, samstarf við háskólasamfélagið og stuðningsumhverfi rannsókna og þróunar til að stuðla að nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Landbúnaður

  • Tillaga að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland verður lögð fram á Alþingi á fyrri hluta kjörtímabilsins. Verður þar byggt á grunni vinnu verkefnisstjórnar um landbúnaðarstefnu, „Ræktum Ísland!”, sem nú liggur fyrir.
  • Sett verða metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi. Með öflugri, innlendri matvælaframleiðslu er stuðlað að heilnæmi matvara og auknu matvælaöryggi, til að mynda til að viðhalda góðri stöðu Íslands varðandi sýklalyfjaónæmi. Tryggja þarf framhald aðgerðaáætlunar um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.
  • Við endurskoðun búvörusamninga verður lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Stuðningur hins opinbera verður samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.
  • Aukinni framleiðslu á grænmeti verður náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun í gegnum búvörusamninga. Mótuð verður heildstæð, tímasett aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu og akuryrkju.
  • Efla þarf landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Útfærður verður rammi um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og annarri tengdri landnotkun.
  • Lokið verður við endurskoðun viðskiptasamningsins við Evrópusambandið um landbúnaðarafurðir.
  • Skilvirkni og afköst við tolleftirlit verða efld með innleiðingu stafrænna lausna á því sviði.
  • Ráðist verður í heildstæða endurskoðun á fyrirkomulagi matvæla- og heilbrigðiseftirlits á Íslandi. Markmið þeirrar vinnu verður að tryggja samræmt einfalt og skilvirkt eftirlit í þágu atvinnulífs og almennings.
  • Huga þarf sérstaklega að regluverki svo það hamli ekki nýsköpun og framþróun, svo sem sölu afurða beint frá býli á neytendamarkað.
  • Mikilvægt er að starfsmennta- og háskólar í landbúnaði séu öflugir og í fararbroddi í rannsóknum á sviði landbúnaðar og umhverfismála, svo sem í þágu loftslagsmála, náttúruverndar, landgæða og nýsköpunar í framleiðslu. Ýta þarf undir framtak og frumkvæði bænda með fræðslu, ráðgjöf, þróun og nýsköpun.

Utanríkis- og alþjóðamál og þróunarsamvinna

  • Friðsamlegar lausnir, sjálfbær þróun, jafnrétti kynjanna, lýðræði og mannréttindi eru hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu.
  • Öflugt norrænt samstarf verður áfram grundvallarþáttur í alþjóðlegu samstarfi Íslands.
  • Unnið verður að því að styrkja enn frekar stöðu og ímynd Íslands sem norðurslóðaríkis og byggja áfram upp innlenda þekkingu í málefnum svæðisins, m.a. með eflingu miðstöðva mennta, vísinda og umræðu og mótun rannsóknaráætlunar um norðurslóðir.
  • Hagsmunum Íslands er best borgið utan Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin mun leggja aukna áherslu á framkvæmd og þróun EES-samningsins þannig að hagsmunir og fullveldi Íslands í samstarfi og viðskiptum við önnur ríki sé tryggt.
  • Lögð verður áhersla á frjáls og opin alþjóðaviðskipti og greiðan aðgang íslensks atvinnulífs að erlendum mörkuðum. Haldið verður áfram að afnema viðskiptahindranir og horft til þess að fjölga fríverslunarsamningum, bæði tvíhliða og í samvinnu við önnur EFTA-ríki.
  • Tryggt verður í öllu alþjóðlegu samstarfi að Ísland hafi fullt forræði yfir öllum auðlindum sínum.
  • Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á að efla og þróa samstarf á vettvangi velsældarríkja þar sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru leiðarljós. Áhersla verður lögð á að Ísland verið meðal forysturíkja í þróun og eftirfylgni velsældarmælikvarða sem treysti stöðu landsins sem velsældarhagkerfis.
  • Í þróunarsamvinnu Íslands verður stóraukin áhersla lögð á loftslagsmál. Sérstaklega verður horft til verkefna á sviði sjálfbærrar orku með tilliti til íslenskrar sérþekkingar á borð við jarðhitanýtingu, sjálfbæra orku- og auðlindanýtingu, náttúrlegra lausna svo sem landgræðslu og endurheimt vistkerfa og jafnréttismál.
  • Ríkisstjórnin leggur áherslu á að öryggismál þjóðarinnar séu í traustum skorðum í samræmi við markmið Þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt er af Alþingi.
  • Stuðlað verður að endurskoðun á Þjóðaröryggisstefnunni á fyrri hluta kjörtímabilsins, sérstaklega í ljósi hnattrænnar og tæknilegrar þróunar, loftslagsbreytinga og úrlausnarefna sem þeim tengjast. Áhersla verður lögð á vernd og órofa virkni þýðingarmikilla innviða og að stuðla að skilvirkum og samhæfðum aðgerðum sem miða að því að tryggja víðtæka öryggishagsmuni þjóðarinnar.

Stjórnarskrá og kosningalög

  • Ríkisstjórnin mun setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði. Efnt verður til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar. Framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar verður metið í framhaldinu.
  • Áfram verður haldið vinnu við endurskoðun kosningalaga samhliða innleiðingu breytinga og nýs fyrirkomulags Landskjörstjórnar.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta