iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: http://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/11/01/Taladu-vid-simann-ChatGPT-plus-faer-islenskar-raddir/
Stjórnarráðið | Talaðu við símann: ChatGPT plus fær íslenskar raddir Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Talaðu við símann: ChatGPT plus fær íslenskar raddir

Nýjar íslenskar raddir eru komnar inn í talgervil mállíkansins ChatGPT. Því er nú hægt að tala upphátt á íslensku við mállíkanið og fá svar til baka, á íslensku. Fyrirtækið uppfærði talgervil sinn í ChatGPT Plus í vikunni sem er nú aðgengileg öllum notendum sem greiða fyrir aðgang (Plus er kostuð útgáfa gervigreindarinnar), með betri raddvirkni en þekkst hefur áður í samskiptum við mállíkön. Með nýju uppfærslunni getur mállíkanið nú skilið íslenskt talmál og svarað á íslensku með ótrúlega góðum framburði. Í gjaldfrjálsu útgáfu forritsins er að finna talgervil sem er töluvert takmarkaðri bæði í framburði, skilning og upplýsingaöflun. Nýja uppfærslan markar því tímamót þar sem möguleikarnir við nýtingu og framfarir í máltækni verða umtalsvert meiri en áður.

„Það eru mikil tímamót fyrir okkur að fá íslenskuna inn í raddformi. Helsta markmið okkar máltæknistarfs hefur verið að hægt sé að eiga samskipti við tæknina á íslensku. Hér náum við því markmiði því nú er hægt að eiga í hrókasamræðum um alla heimsins hluti á íslensku við ChatGPT. Þetta er ný og spennandi tækni og tækifærin sem felast í henni fyrir alls konar spennandi lausnir sem hægt er að byggja ofan á hana eru ótalmörg. Þetta eru spennandi tímar fyrir tungumálið okkar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Hún segist þó hafa lent í byrjunarörðuleikum við að stilla ChatGptPLUS forritið á símanum sínum en hún hafi skemmt sér konunglega í samræðum við spjallmennið og það hafi komið á óvart bæði hve talandinn er góður og hve mikið magn af sértækum íslenskum upplýsingum er að finna. „Ég spurði bæði út í fræðilega hluti, hvað ég ætti að hafa í kvöldmatinn og uppfærði brandarasafnið,“ segir ráðherra og hlær.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá dæmi um þær raddir sem hægt er að velja fyrir ChatGPT og hvernig þær svara á íslensku og sjá ráðherra ræða við spjallmennið.

Myndband

Íslenska hefur staðið framarlega í lausnum OpenAI, frá því að samstarf hófst milli Íslands og fyrirtækisins um að þjálfa mállíkanið sérstaklega í íslensku með því að mata það á gögnum og afurðum máltækniáætlunar stjórnvalda. Ísland á í dag í góðu sambandi við fyrirtækið og samstarfið hefur verið eflt á síðustu mánuðum.

Í lok september tók Ísland þátt í viðburði á vegum OpenAI í New York í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ráðherra tók þar þátt í pallborðsumræðum um mikilvægi þess að smærri málsamfélög gætu notað nýjustu tæknilausnir á eigin tungumáli. Á viðburðinum sýndi OpenAI ýmsa nýja taltækni sem fyrirtækið hefur verið að vinna að og ræddi sendinefnd Íslands við fyrirtækið um möguleika til að bæta íslenskufærni tallausnanna. Með uppfærslunni er færni þeirra stórbætt og má búast við að hún verði enn betri á komandi mánuðum. 

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta