iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: http://www.snerpa.is/net/thjod/himin.htm
Himinbjargar saga

HIMINBJARGAR  SAGA



Það er upphaf þessarar sögu, að kóngur og drottning réðu fyrir ríki. Eigi er nafns þeirra getið eður hvar þau stýrðu ríki. Þau áttu son einn barna. Sá hét Sigurður. Hann var atgjörvismaður að öllu, og unnu þau honum umfram alla menn, enda var hann þeim hinn ástúðlegasti, og hverjum manni geðjaðist hann vel. Var hann þá fulltíða maður, er þetta ævintýri gjörðist.

Þess er getið, að drottning tók sótt þá, er hana leiddi til bana. Hörmuðu það allir menn og þó mest kóngur og Sigurður son hans, og svo fékk þeim mikils fráfall drottningar, að þeir gættu engrar gleði né skemmtunar. Leituðu vitrir menn við að hugga þá, og kom svo um síðir með ráði þeirra og fortölum, að kóngi fyrndust sínir harmar að nokkru leyti og skemmti sér við leiki, en Sigurður hélt uppteknum hætti um harma sína. Lá hann löngum úti á nætur einmana á leiði móður sinnar og fekk hann þaðan enginn maður, og fór þessu fram um hríð.

Það bar til eitt sinn, sem kóngur var genginn til leika á völlu nokkura utan borgar í blíðu veðri með hirð sinni, að menn sáu upp draga skýflóka nokkurn. Bar hann skjótt yfir, þangað sem kóngur var, og það með svo undarlegum hætti, að kona nokkur, væn og vel búin, kom úr skýflókanum, og þótti mönnum furðu gegna um hennar þarkomu.

Hún gekk fyrir kóng og kvaddi hann kurteislega. Kóngur tók vel kveðju hennar og frétti hana að nafni. Hún kvaðst Himinbjörg heita og bað kóng viðtöku. Margir löttu kóng þess og ætluðu einhver býsn mundu fylgja hennar þarkomu. En með því kóngi leist konan vel, tjáði eigi þess að letja, og veitti kóngur henni viðtöku.

Var Himinbjörg þar með kóngi og kom sér við hvern mann vel, og svo kom, að kóngi féllust hugir til hennar. Gjörði hann það opinbert fyrir sínum mönnum, að hann vildi taka hana sér til drottningar. Þetta þótti öllum vel til fallið, og með ráði hinna bestu manna varð það framgengt, að kóngur tók Himinbjörgu sér fyrir drottningu.

Drakk hann brúðkaup til hennar, og stóð sú veisla með hinni mestu virðingu. Lét kóngur þá af öllum harmi eftir drottningu, og glöddust við það allir hans menn. Ekki gaf Sigurður sig um þetta. Var honum jafnan eitt í hug um fráfall móður sinnar og hélt oftast til á leiði hennar. Var kóngi og vinum hans að þessu skapraun mikil, en fengu þó eigi við gjört.

Eina nótt lá Sigurður úti á leiði móður sinnar, og er á leið nóttina, sofnaði hann. Hann dreymdi, að móðir hans kæmi til hans og leit til hans heldur illúðlega.

Hún mælti: "Hér liggur þú, Sigurður, og er undarlegt um þína hagi. Þykir mér ráði þínu komið í ónýtt efni. Þú gjörir þig að undri miklu, liggur hér úti hverja nótt sem þorparar með víli og harmi og gjörir mér með því stórar ónáðir, enda skaltu nú og þess nokkurar menjar hafa. Legg ég það á þig, að þú skalt enga ró hafa, fyrr en þú hefur komið úr álögum einni kóngsdóttur, sem er hið mesta tröll."

Gekk hún þá í burt. Sigurður vaknaði og þóttist sjá svip af henni. Fór hann þá heim og lagðist í rekkju með ofurharmi. Gengu þá til að hugga hann allir hinir vitrustu menn, og var það sem ógjört.

Kóngur bað Himinbjörgu til ganga og vita, ef hún mætti nokkura bót vinna á hans meini. Hún gjörði svo. Og sakir kænsku hennar og mjúkrar eftirleitni sagði Sigurður henni draum sinn og allt tilefni harma sinna.

Hún kvað allmikið til draga, "og mun hér sannast það, sem mælt er," sagði hún, "að fátt er rammara en forneskjan. Mun við þessu ekki mega gjöra. Á ég mér fóstru eina," segir hún, "og kunni hún þér ekkert að hjálpa, þá kalla ég útgjört um þína hjálparvon. Vil ég senda þig til hennar, og er hér knífur og belti, er þú skalt færa henni til jarteikna, að ég vil þú hafir hennar fulltingi til þessarar þrautar. Þar með er hér eitt hnoða, sem ég vil fá þér. Lát það velta fyrir þér, en haltu í enda hnoðans, og muntu að þess leiðsögu hitta á byggð fóstru minnar. Það legg ég og þér til ráðs, að þú gjörir öllum gott, sem á þinni leið verða. En svo segir mér hugur um, að eftir burtför þína muni ríkismenn og jafnvel faðir þinn snúast í móti mér. Mun mér kennt verða um ósköp þín og verða við dauða hætt, nema þú bjargir."

Hann kvað það eigi að sínum vilja vera skyldi. Slitu þau svo tal sitt, og bað hvort vel fyrir öðru.

Litlu síðar hvarf Sigurður burt, og vissi enginn, hvert hann fór. Þótti öllum það mikill skaði.

Nú er að segja af ferðum Sigurðar. Hann gekk um fjöll og eyðiskóga og átti langar leiðir. Ekkert hungur leið hann á þessari reisu, því Himinbjörg hafði fengið honum malsekk einn, og var það hans náttúra, að aldrei þraut vistir í honum. Hnoðað valt jafnan fyrir, og fylgdi hann því eftir. Einn dag kom Sigurður að sjávarströndu og gekk með henni.

Urðu þá fyrir honum hamrar nokkrir fram með sjónum. Þar sá Sigurður hrafna marga og hafði tölu á. Voru þeir fimmtíu. Þeir sóttust á sín á milli, og reif hver annan, en einn lá á jörðu mjög máttfarinn. Sigurði þótti þetta undarlegt. Stóð hann við um hríð og horfði á viðureign þeirra. Hann sá spor í hamrana, sem þeir deildu um, og vildu þar allir sitja. Minntist hann þá á ráð stjúpu sinnar. Það varð hans ráð, að hann hjó öllum hröfnunum spor í hamrana og setti sérhvern í sitt spor, en þann veika hrafninn setti hann í það sporið, er þeir höfðu áður um deilt. Síðan gaf hann þeim öllum mat, og voru þeir þá alsáttir. Eftir það gekk hann í burt. En er hann gekk burt, kölluðu þeir eftir honum og báðu hann nefna sig, ef hann þyrfti lítils við. Hann kvaðst það gjarnan vilja.

Skammt hafði Sigurður þaðan gengið, áður fyrir honum urðu önnur björg og í þeim fimmtíu máfar með sömu aðferð og hrafnarnir, og fór um þá á sömu leið.

Enn kom hann að þriðju hömrunum. Þar fann hann fimmtíu dúfur með sama hætti, og lyktaði þeirra þræta, og allt fór með þeim sem um hina segir. Allir báðu þeir hann nefna sig, ef hann við þyrfti, og tók hann allra þeirra tilboði þakksamlega.

Er nú eigi getið um ferðir hans, fyrr en hann kom að nokkrum húsabæ litlum. Þar var hurð í hálfa gátt. Þar stóð hnoða hans við. Skildi hann þá, að þetta var sá bær, er honum var til vísað. Hann drap þar á dyr. Kona kom út, mjög við aldur. Hann spyr hana að nafni. Hún gegnir honum fálega og kvaðst Blákápa heita. Hann bað hana húsa.

Hún tók ekki greiðlega á því, kvað þar hús lítil og eigi við gestum búist, "enda veit ég eigi," segir hún, "hvað dreng þú ert."

Sigurður bar henni kveðju Himinbjargar.

"Vel verði fóstru minni," segir hún, "eða hvað veist þú til hennar?"

Hann kvaðst hana séð hafa, "og sendi hún mig til þín að leita hjá þér liðveislu."

Fékk hann henni þá kníf og belti.

Hún leit gripina og mælti: "Sannar eru jarteiknir þínar, og víst þykir fóstru minni mikið undir um liðveislu við þig, og er það fyrst til, að þú sért með mér náttlangt."

Gengu þau þá inn, og bjó hún honum borð. En er hann var mettur, fylgdi hún honum til sængur, og var þar að öllu vel um búið. Svaf hann af um nóttina.

Um morguninn var Blákápa snemma á fótum. Gekk hún að sæng Sigurðar og spyr hann gjör um hans hagi. Sagði hann henni hið ljósasta af sínu efni og fyrir hverja orsök hann var þar kominn. Blákápa þagði um stund og heldur með áhyggjusvip. Eftir það mælti hún:

"Mikil eru vandræði þín, Sigurður," segir hún, "hvernig sem þú færð úr ráðið. Skil ég gjörla, hvert þér er vísað. Hér skammt frá hefur ráðið fyrir ríki kóngur ágætur. Hann átti dóttur við drottningu sinni, sem hét Ingigerður, og hélt hún eina skemmu með átján meyjum, sem henni þjónuðu, sem allar voru dætur tiginna manna.

Nú bar svo til, að drottning andaðist. En skömmu eftir andlát hennar kom þar í ríki ein jómfrú harla fögur sýnum, sem þó reyndar var hið versta tröll. Enginn vissi, hvaðan hún kom. Svo gekkst kóngi hugur fyrir fríðleik hennar, að hann tók hana sér til drottningar, og var það mest í móti skapi Ingigerði kóngsdóttur. Gaf hún sig lítt að stjúpu sinni, og fyrir þá sök lagði hún á hana fjandskap mikinn, og eitt sinn kom hún til skemmu Ingigerðar og lagði á hana, að hún skyldi verða að hinni mestu tröllkonu og allar þær skyldu tröll verða og drepa föður sinn og eyða hans ríki.

Eftir það hvarf hún í burt, og hefur enginn síðan til hennar spurt. En svo voru römm þessi álög, að það kom allt fram um hagi kóngsdóttur og skemmumeyja hennar, sem hún fyrir mælti. Eru þær allar hræðileg tröll og hún þó hið mesta. Hefur hún drepið föður sinn og frændur og eyðilagt hans ríki svo gjörla, að þar er engum manni vært, og hefur hún þar sitt aðsetur með þeim átján. Skil ég nú, að þessi er sú kóngsdóttir, sem þér er til vísað, og er það hin mesta hætta, og engir hafa þeir lífs af komist, sem hana hafa heimsótt, og nema þú sért því meiri gæfumaður, kemur þú aldrei þessu til vegar. Þó með því svo eru mikil atkvæði um álög þín, mun eigi tjá að letja þig þessar ferðar, og skal ég að vísu til leggja með þér slíkt, er ég má, fyrir bænastað fóstru minnar. Vil ég, að þú farir nú í dag til híbýla skessunnar. Skalt þú djarflega inn ganga og setjast í ysta sæti. En er hún kemur inn; skaltu svara djarflega hennar máli, og mun þér eigi tjá að skræfast við þær."

Sigurður kvað svo vera skyldu. Eftir það fór hann að tilvísan Blákápu og kom til hallar skessunnar. Varð honum greitt tiI inngöngu, því dyr voru opnar. Fór hann svo sem honum var kennt og beið þess, er verða vildi. Litlu síðar heyrði hann úti dunur ógurlegar, og þótti honum sem höllin bifaðist. Kom þar þá inn flagðkona, hræðilega stór og ófrýnileg, og fylgdu henni átján flagðkonur, allar mjög illilegar. Aldrei hafði Sigurður séð svo ámáttleg kvikindi, og var þó sú verst, er fyrst gekk inn. Hún kastaði orðum á Sigurð og spurði hann, hver hann væri eða hvert hann ætlaði að ferðast. Hann kvaðst það varla vita, kvað sig hefði þar að borið og þykja gott, þar hann mætti staðnæmast.

Hún spyr, hvað hann kynni að vinna. Hann kvaðst fátt kunna.

"Nokkuð munt þú þó hljóta til að vinna," segir hún, "ef þú skalt grið hafa hér með oss."

Veik hún þá að hásætinu og tók ofan tafl eitt, er þar var upp fest. Síðan gekk hún að Sigurði og sýndi honum taflið. Var það gulltafl og hinn ágætasti gripur. Hún mælti: "Það skaltu vinna þér til griða að sækja mér annað tafl jafngott og svo að öllu sem þetta."

Hann kvað það mundi eigi auðvelt, "eður hvert skal ég það sækja?" segir hann.

Hún mælti hann skyldi sjálfur fyrir því sjá, "og hygg svo fyrir," segir hún, "að hér skal höfuð þitt við liggja, ef þú færir mér eigi taflið fyrir hina þriðju sól."

"Ríkt er þetta fyrir skilið," mælti hann.

"Eigi skaltu annað þora," segir hún, "eða missa höfuð þitt ella."

Gekk Sigurður þá út og fann Blákápu og segir henni af sínum ferðum og af þeirri þraut, er tröllið hafði fyrir hann lagt.

Hún mælti: "Eigi er greitt að þessu að ganga. Veit ég þetta tafl hvergi til vera nema hjá dvergum tveimur, og hafa þeir á því miklar mætur og geyma það vandlega. Er mér auðsætt, að eigi verður því náð, nema þeim sé fyrri bani ráðinn. Skulum við og nú þegar til leita."

Síðan fóru þau að sjó fram. Þar gat Blákápa fundið bát einn lítinn, og stigu þau bæði þar á. Reru þau síðan frá landi, þar til þau komu að klett einum, sem upp stóð úr sjónum. Það var inni dverganna.

Er eigi um getið, hver brögð Blákápa hafði í frammi í þessari för. En svo lauk, að hún gat lokkað dvergana út, og drap Sigurður þá báða, en hún náði á meðan taflinu og fékk það í hendur Sigurði, og varð hann þeim feng næsta glaður.

Fór hann með það til hallar skessunnar og settist í hið ysta sæti sem fyrr. Var þá eigi langt hennar að bíða, og er hún kom inn, litaðist hún um og var heldur stóreygð.

En er hún sá Sigurð, mælti hún: "Nú ertu hér kominn, karlinn, og muntu færa mér taflið."

Hann kvað þess enga von, fyrst hún sagði honum eigi, hvar þess væri að leita. Þá ygldi hún sig og kallar á stallsystur sínar og bað þær slátra honum í spað. Þær hlupu fram þegar, en Sigurður fékk skessunni taflið, og þótti henni undrum sæta. Brátt komu hinar inn, og hafði hver þeirra skálm í hendi. Hún æddi móti þeim og pústraði þær og rak þær út harðlega með verstu fúkyrðum.

Eftir það mælti hún til Sigurðar: "Nú muntu þykjast leyst hafa þetta verk, og skulum við þó eigi að því sátt. Skaltu meira hljóta að vinna þér til griða."

Leiddi hún þá Sigurð í kastala nokkurn. Þar uppi yfir var glerhiminn, og stóðu fjórir stólpar undir af klárasta gulli, og allt var þetta smíði með undarlegum hagleik gjört.

Hún mælti til Sigurðar: "Hér máttu sjá glerhimin þenna með fjórum gullstólpum, og þykir mér hinn fimmta til vanta. Nú skaltu vinna þér það til griða að sækja mér hinn fimmta stólpann og koma honum hér undir. Skal hann vera að öllu eins og svo að öllu um hann búið sem þessa, ellegar verður það þinn bráður bani, og haf þessu starfi af lokið fyrir hina þriðju sól."

Sigurður spurði, hvar hann skyldi stólpans leita. Hún kvað hann skyldi sjálfur fyrir því sjá.

Sigurður fór þá til Blákápu og segir henni tíðindin. Hún mælti: "Ekki fækka enn vandræði þín. Er þessi þrautin hinni miklu torveldari."

Segir hún þá Sigurði, hvar stólpann sé að finna. Var það í kóngshöll einni, og var þangað langt að fara. Hröðuðu þau nú ferð sinni og komu þangað að kvöldi, en áður þau kæmi til manna, fékk hún Sigurði hulinhjálmsstein, en hafði sjálf annan. Síðan gengu þau í borgina og leyndust í ýmsum húsum allt til nætur, og sá þau enginn maður. En er allir menn voru sofnaðir, fóru þau að leita stólpans. Gekk Blákápa fyrir, en Sigurður eftir, en hvar sem þau komu að læstum dyrum, tók Blákápa sprota undan kápu sinni og laust á þær, og lukust þær þá upp. Um síðir komu þau þangað, sem stólpinn var. Bað hún Sigurð reyna, ef hann fengi honum undan kippt. Hann gjörði svo og fekk ekki að gjört.

Hún tók þá glóa úr pungi sínum og lét á hendur sér, svipti síðan stólpanum undan og lagði sér á herðar, því eigi hafði Sigurður þrek til hann að bera. Eftir það sneru þau heimleiðis, og urðu engir menn við þau varir. Fór Blákápa eftir það með Sigurði og kom með brögðum stólpanum svo fyrir sem skessan hafði fyrir mælt og sneri heim eftir það, en Sigurður var þar eftir og beið skessunnar.

En er hún kom heim, fóru orð á milli þeirra á sama veg og um taflið. Sýndi hann henni stólpann og hans umbúnað.

Þá mælti skessan: "Undarlega miklu getur þú til vegar komið, þvílíkt barn sem þú ert, og víst ert þú eigi einn í leikum. Hef ég til þessa verks margan mann sent, og hefur það engum tekist. En engu að síður skalt þú þó meira til vinna, ef þú vilt lífi og griðum halda. Ég á uxa einn á skógi. Þú skalt slátra honum á einum degi og hafa engan í verki með þér. Þú skalt láta blæða á borðdúk minn. Síðan skaltu þvo dúkinn og skila mér honum svo hvítum sem snjó. Húðina skaltu elta og skila mér henni svo mjúkri sem ull. Hornin skalt þú fægja og skila mér þeim svo fögrum sem gulli og hafa allt þetta unnið fyrir þriðju sól."

Þá mælti Sigurður: "Þetta er einskis manns að gjöra."

"Engu að síður skal höfuð þitt hér við liggja," segir skessan.

Sigurður gekk þá burt og fann Blákápu og segir henni svo búið.

Blákápa varð við þetta mjög hugsjúk og mælti: "Allmjög er þér nú bani ráðinn. Uxi þessi, er skessan hefur um talað, er hið ferlegasta blótneyti, og þykir mér sú von vísust, að hann gleypi þig, ef þið finnist, og er það harmur mikill, að ég má þér nú ekki bjarga. Mun ég nú leggja ráð til með þér, en fara hvergi. Þú skalt leita uxans, og er þú sér hann, skaltu breiða niður dúkinn."

Hún fekk honum posa einn, og var í sem duft að sjá, og mælti: "Þessu skaltu sá á dúkinn, og ef svo kann til bera, að nautið daunsni þar af, þá það kemur þar að, þá hlaup sem snarast á hrygg nautsins og legg það með knífi til hjartans ofan hjá herðablaðinu. Þar skaltu sitja, hvert sem það hleypur, til þess það fellur niður dautt, og muntu þurfa alls að neyta til að halda þér, og má svo verða, að þetta dugi. En allt er þetta þó með mikilli hættu. Far nú heill og lukkudrjúgur."

Sigurður þakkar henni og fór við það. Breytti hann að öllu eftir hennar ráði, og þó erfitt veitti, gat hann unnið blótneytið með þessum hætti. Fló hann uxann og tók af hornin, settist síðan niður og var mjög þrekaður.

Hann tók þá að huga, hvern veg hann skyldi leysa af höndum það, sem óunnið var þessarar þrautar. Sá hann til þess engin ráð og vissi sér einskis von nema dauða.

Honum varð það fyrir, að hann minntist þá á fugla sína og mælti: "Nær munda ég meir við þurfa hrafna minna, máfa minna og dúfna minna en nú."

Í því bili sá hann fuglaflokk mikinn þangað fljúga. Voru það fuglar hans í þremur hópum. Tók einn dúkinn, annar húðina og þriðji hornin og flugu í burt með, en Sigurður fór heim til Blákápu og segir henni, hvað gjörst hafði. Hún fagnaði því, og sváfu þau af um nóttina.

En að morgni, er þau gengu út, lá þar fyrir dyrum allt það, er fuglarnir höfðu með farið, svo til reitt sem skessan hafði fyrir mælt.

Hún tók upp og fekk Sigurði og mælti: "Nú skaltu í dag færa þetta allt skessunni, og uggir mig henni bregði svo nokkuð við, er hún sér það, og ef þér þykir skiptast um yfirbragð hennar, þá skaltu dreypa á hana og þær allar af horni þessu," og fekk honum hornið. "Síðan skaltu með fara sem þér þykir vænlegast."

Þau kvöddust við það, og gekk Sigurður til hallar skessunnar og beið með sama hætti og fyrr, þar til skessan kom inn, og er hún kom, var hún svo ferleg, að Sigurður stóðst varla að sjá hana. Hún spyr þegar að erindislokum, en hann kvað þess enga von, að hann eða nokkur annar leysti þá þraut. Hún varð við það sem óð væri og bauð hinum flögðunum að brytja hann í spað þegar. Æddu tröllin út og komu brátt aftur með skálmar sínar.

Þá tók Sigurður upp gripina og rétti að skessunni. Henni brá við það undarlega. Datt á hana logn mikið og hné í ómegin og allar þær. Féllu af þeim tröllshamirnir, og voru þær þá allar fríðar jómfrúr.

Sigurður brá við skjótt og kynti bál mikið þar fyrir hallardyrum og bar saman tröllshamina og lagði á bálið. Fortærði eldurinn þeim skjótt, en er það var búið, tók hann hornið og dreypti á þær allar, og röknuðu þær við og nærðust smám saman.

Þá mælti Ingigerður: "Hver er þessi maður, er oss hefur að svo miklu liði orðið?"

Sigurður greindi henni heiti sitt og ætt.

Hún segir: "Stóran velgjörning hafið þér oss auðsýnt, og kemur þó mest til mín. Fæ ég þetta eigi fulllaunað, og skuluð þér sjálfur laun kjósa, en ég mun eigi synja, hvað sem þér kjósið."

Hann kvað þetta vel boðið og kaus að eiga hana. Hún sagðist halda skyldu það hún hefði lofað. "Er þó ráð þú finnir föður þinn áður og látir vita, hvað um þig hefur liðið, því víst mun hann og vinir þínir vera hugsjúkir um þig."

Sigurður kvað svo vera skyldi. Bjó hann sem snarast sína ferð, og skyldi Ingigerður hans bíða. Hélt hann svo heim í ríki föður síns.

Nú er þar til að taka, sem áður var frá horfið, að Sigurður hvarf. Fór þá allt eftir getu Himinbjargar. Var hún haldin sek í hvarfi hans og fyrir það dæmd til dauða. Fekk hún þó af kóngi þriggja ára frest, ef til hans kynni að fréttast, en að þeim liðnum skyldi hún brennast, og bar nú allt að í senn, að bálið var kynt og hún til brennu leidd og Sigurður kom.

Brá þá öllum í brún, og undraði alla um hans afturkomu. Snerist þá allt í fögnuð. Birti Sigurður fyrir mönnum allt um sína hagi, enda sagði Himinbjörg, að hún hefði þessu ollað til frelsis Ingigerði, því að hún væri sín systir, og fuglar þeir, er Sigurður hefði bjargað, væri þeirra frændfólk, sem í álögum hefði verið, og voru menn nú allkátir og drukku fagnaðaröl, og að því búnu bjuggust kóngur og Sigurður með fögru föruneyti að vitja Ingigerðar.

Fór Himinbjörg með, og fékk Sigurður þá Ingigerðar með frænda ráði. Settust þau þar að ríki og unnust harla mikið. Þóttu þau hin ágætustu, og er eigi getið þeim hafi síðan neitt til rauna borið, og eru frá þeim margir höfðingjar og stórmenni komnir, þótt hér sé eigi talið. Og lyktar svo sögu þessa.



Netútgáfan - febrúar 1998