iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: http://is.wikipedia.org/wiki/Tatarstan
Tatarstan - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Tatarstan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Tatarstan (rússneska: Республика Татарстан, tataríska: Татарстан Республикасы, er sjálfstætt lýðveldi innan Rússneska sambandsríkisins. Landið sem er í miðjum austanverðum Evrópuhluta Rússlands er um 68.000 km² og íbúar þess eru um 3.800.000 (2010) Landið liggur á miðju vatnasvæði Volgu þar sem árnar Volga og Kama koma saman. Höfuðborg þess er Kazan.

Landlýsing

[breyta | breyta frumkóða]
Kortið sýnir legu Lýðveldisins Tatarstan innan hins víðfeðma rússneska sambandsríkis

Áin Volga rennur frá norðri til suðurs yfir vesturhluta lýðveldisins Tatarstan, en áin Kama, sem er stærsta þverá Volgu, myndar austur-vestur ás í gegnum stóran hluta landsins. Árnar Vyatka og Belaya eru helstu þverár Kama. Mestur hluti landsins er láglendar sléttur. Vestan Volgu rís land upp í 235 metra hæð, þar eru hálendari sléttur Volgusvæðisins. Í austri hækkar land að rótum Úralfjalla.

Stærstur hluti lýðveldisins eru sléttur og einn sjötti er skógi vaxinn. Mikið vatnakerfi kvíslaðist um landið en með gerð uppistöðulónanna Nizhnekamsk og Samara, sem samtals ná yfir 2.850 ferkílómetra, hvarf hluti þess við Volgu og neðanverða Kama.

Í Tatarstan er meginlandsloftslag, með löngum, köldum vetrum og heitum sumrum. Árlegt regn er 420-510 mm sem nær hámarki að sumri.

Fyrstu byggð á landsvæði Tatarstan má rekja til síðari hluta steinaldar. Í landinu eru fornleifar frá steinöld og bronsöld. Á járnöld (8. – 3. öld f.Kr.) var þar landbúnaðarmenning eða svokölluð Ananino-menning sem líklega má rekja til fólks af finnsk-úgrískum uppruna. Það var einkum á svæðum við efri Volgu og í árdölum Kama. Á fimmtu öld f.Kr. varð Gorodets-menning ríkjandi í vesturhluta Tatarstan.

Á fjórðu öld f.Kr. hertóku ættkvíslir af İmänkiskä menningu stóran hluta Volga-Kama svæðisins. Og í upphafi fyrstu aldar e.Kr. kom svonefnd Pyanobor-menning fram við neðri hluta Kama árinnar, .

Volga Búlgaría

[breyta | breyta frumkóða]
Ívan grimmi lét byggja dómkirkju heilags Basils í Moskvu sem minnismerki um sigra Rússa í Kazan árið 1552.

Elstu þekkta skipulagða ríki innan landamæri Tatarstan var Volga Búlgaría sem var við lýði á árunum 700 til 1238. Var þar stofnað til viðskiptasambanda meðal annars við víkinga, innri Evrasíu, Miðausturlönd og Eystrasaltsríki. Volgu-Búlgarar urðu múslimar upp úr 900 þegar íslam var boðað með trúboði frá Bagdad. Tryggðu þeir þannig samband sitt við Kalífatið.

Um 1230 féll ríki Volgu Búlgaríu fyrir herjum mongólska prinsins Batú Kan úr Gullnu hirðinni. Gullna hirðin klofnaði svo upp á 15. öld. Þá var borgin Kazan byggð upp sem höfuðborg sjálfstæðs kanats. Varð borgin að mikilvægri viðskiptamiðstöð, þar sem árlegar kaupstefnur voru haldnar á eyju í Volgu.

Kanatið átti lengi í átökum við Moskvu en árið 1469 náði Ívan III. borginni á sitt vald en leppur hans (kan) skipulagði fjöldamorð Rússa árið 1504. Á 15. og á þeirri 16. voru Rússnesku-Kazan stríðin háð en það var röð stríða á milli kanatsins í Kazan og Moskvuveldisins í Rússlandi.

Innan Rússlands

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1552 tók Ívan grimmi (Ívan IV) borgina eftir langt umsátur og innlimaði kanatið í Rússland. Hið gamla virki Tataranna var endurbyggt sem rússneskur kastali (kreml).

Margir Tatarar voru neyddir til kristni og dómkirkjur voru byggðar í Kazan. Árið 1593 var öllum moskum á svæðinu eytt. Rússneska ríkisstjórnin bannaði byggingu allra moska. Því banni var ekki aflétt fyrr en Katrín II. mælti svo fyrir á 18. öld.

Þegar Síbería tók að opnast meir, óx mikilvægi Kazan sem viðskiptamiðstöðvar og iðnaður tók að þróast þar strax á 18. öld. Í kringum aldamótin 1900 var hún ein stærstu iðnaðarborga Rússlands.

Á 19. öld varð Tatarstan að miðstöð svokallaðs jadidisma, en það er trúarsöfnuður innan íslamska er boðar umburðarlyndi fyrir öðrum trúarbrögðum. Átti þetta nokkurn þátt í vinsamlegum samskiptum Tatara við aðrar þjóðir innan Rússlands.

Rússneska borgarastyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1919 lýstu bolsévikar yfir stofnun Sovéska sjálfstjórnarlýðveldinu Tatar-Bashkir, en svæðið var á þeim tíma að miklu leyti undir yfirráðum hvítliða. Sigur kommúnista leiddi til stórfellds fólksflótta, einkum meðal þeirra efnameiri. Rússneska borgarastyrjöldin í Tatarstan tók enda þegar andkommúnísk bændabylting var bæld niður árið 1920 og Sovétlýðveldinu var loks komið á fót það ár. Í hönd fór svokallaður „stríðskommúnismi“ á árunum 1921-1922. Olli það mikilli hungursneyð í Tatarstan sem felldi um hálfa milljón manna.

Seinni heimstyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Á tímum Stalíns var kúgun landsmanna mikil, þjóðareinkenni Tatara voru bönnuð, tatörsk tunga bönnuð og rússneska lögleidd í skólum. Trúarbrögð, þó sérstaklega íslam, voru bönnuð.

Meira en 560.000 hermenn frá Tatarstan tóku þátt í seinni heimsstyrjöldinni og ríflega 300.000 þeirra féllu. Margir sovéskar verksmiðjur og starfsmenn þeirra, sem og Vísindaakademía Sovétríkjanna, voru flutt til Tatarstan í seinni heimstyrjöldinni. Í stríðinu fundust þar mjög stórar olíulindir. Við þróun og nýtingu þeirra iðnvæddist Tatarstan hraðar en mörg önnur ríki innan Sovétríkjanna.

Eftir seinna stríð

[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum 1960 til 1970 var olíuiðnaður í Tatarstan þróaður enn frekar. Bílaverksmiðja KamAZ gerði borgina Naberezhnyje Tsjelny að annarri stærstu borg lýðveldisins.

Við uppskipti Sovétríkjanna 1991 varð Tatarstan að sjálfstjórnarlýðveldi innan Rússneska sambandsríkisins.

Í dag er Tatarstan eitt þróaðasta ríkið innan Rússneska sambandslýðveldisins.

Kort af Tatarstan.

Efnahagslíf lýðveldisins byggir einkum á olíuframleiðslu, efnaiðnaði og öðrum iðnaði. Í landinu er fjölbreyttur landbúnaður.

Tatarstan er olíuríki. Miklar olíulindir fundust í Tatarstan árið 1943. Síðan þá hefur þróun þess iðnaðar verið hröð. Olíuleiðslur liggja til austurs og vesturs frá olíulindum Almetyevsk. Jarðgas er framleitt í í Nizhnaya Maktama.

Efnaiðnaðurinn hefur aðallega þróast í borgunum Kazan, Mendeleyevsk og Nizhnekamsk. Í landinu eru stórar gifsnámur. Verksmiðjur eru að mestu í borgunum meðfram Volgu og Kama, einkum í Kazan, Zelyonodolsk og Chistopol. Í borginni Naberezhnye Chelny er stór vörubílaverksmiðja. Pappír og pappírsdeig er unnið í Mamadysh og nálægum borgum. Framleiðsla á sápu og fituvörum er umfangsmikil í Kazan.

Helstu landbúnaðarvörur eru hveiti, korn (maís), hirsi, grænmeti, kartöflur, sykurrófur, hampur, tóbak, epli, mjólkurafurðir og búfé.

Samkvæmt manntali 2010 eru íbúar Tatarstan 3.786.488. Þrír fjórðu þeirra (74%) búa í þéttbýli og um fjórðungur (26%) í dreifbýli. Í höfuðborginni Kazan býr um 1 milljón manna.

Hin fagra Qolsharif Moska var byggð innan Kremlarveggja Kazan borgar á 1000 ára afmæli borgarinnar. Moskan sem var vígð 2005, var að miklu leyti byggð fyrir gjafafé frá Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og fleirum. Sagan er skammt undan: Moskan dregur nafn sitt af trúarleiðtoganum Qolsharif sem varðist Ívani grimma og Rússum frækilega árið 1552.

Tatarstan er fjölþjóðlegt lýðveldi. Áætlað er að í landinu séu um 115 þjóðarbrot og ættflokkar. Af þeim þjóðarbrotum sem telja fleiri en 10 þúsund eru Tatarar ríflega tvær milljónir (52,9% íbúa), Rússar eru um 1,5 milljón manna (39,5%), Sjúvar eru 126.500 (3,4%). Meðal smærri þjóðarbrota eru Mordvinar, Údmúrtar, Marar og Basjkírar.

Um helmingur íbúa Tatarstan (Tatarar og Basjkírar) eru Súnní-múslimar. Flestir Rússar aðhyllast hins vegar rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Opinber stefna lýðveldisins er að styðja við það jafnvægi sem er á milli íslam og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Í lögum er kveðið á um jafnrétti allra trúarbragða og umburðarlyndi á grundvelli virðingar fyrir mannréttindum og trúarlegum fjölbreytileika. Um 1.400 mismunandi trúarsamtök eða söfnuðir voru opinberlega skráð í Tatarstan árið 2008.

Opinber tungumál eru tatarska og rússneska. Rússneska er engu að síður megintunga viðskipta. Samkvæmt rússneskum lögum frá 2002 er kyrillíska stafrófið hið opinbera ritmál. Því hefur verið mótmælt í Tatarstan. Latneska stafrófið var opinberlega tekið upp í Tatarstan 1927 í stað þess arabíska. Kyrillíska stafrófið var síðan tekið upp árið 1939 í tíð Jósefs Stalín, sem leitaðist við að gera hvern krók og kima Sovétríkjanna rússneskan, alveg án tillits til uppruna íbúanna.