iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: http://is.wikipedia.org/wiki/Súdan
Súdan - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Súdan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Súdan
Jumhuriyat as-Sudan
جمهورية السودان
Fáni Súdans Skjaldarmerki Súdans
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Al-Nasr Lana
(arabíska: Sigurinn er okkar)
Þjóðsöngur:
Nahnu Jund Allah, Jund Al-watan
Staðsetning Súdans
Höfuðborg Kartúm
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Bráðabirgðastjórn

Formaður fullveldisráðsins Abdel Fattah al-Burhan
Sjálfstæði
 • Frá Bretlandi og Egyptalandi 1. janúar 1956 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
15. sæti
1.886.068 km²
6%
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
33. sæti
41.592.539
21,3/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 33,903 millj. dala (74. sæti)
 • Á mann 4.232 dalir (148. sæti)
VÞL (2018) 0.507 (168. sæti)
Gjaldmiðill súdanskt pund (SDG)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .sd
Landsnúmer +249

Súdan (arabíska: السودان‎ as-Sūdān) er land í Norðaustur-Afríku. Súdan á landamæri að Egyptalandi í norðri, Eritreu og Eþíópíu í austri, Suður-Súdan í suðri, Mið-Afríkulýðveldinu í suðvestri, Tjad í vestri og Líbíu í norðvestri. Súdan á strandlengju að Rauðahafi í norðaustri. Íbúar Súdan eru um 43 milljónir og landið er um 1,9 milljón ferkílómetrar að stærð, sem gerir það að þriðja stærsta landi Afríku og líka það þriðja stærsta í Arabaheiminum. Súdan var áður stærsta land Afríku, þar til Suður-Súdan klauf sig frá því árið 2011. Höfuðborgin heitir Kartúm. Áin Níl rennur í gegnum mitt landið og skiptir því í austur- og vesturhluta.

Saga Súdans nær aftur til faraóanna. Þar stóð Kermamenningin frá um 2500 til 1500 f.Kr. sem Nýja ríkið í Egyptalandi lagði undir sig, og þar kom upp konungsríkið Kús (um 785 f.Kr. til 350 e.Kr.) sem aftur réði yfir Egyptalandi í hálfa öld. Eftir fall Kús stofnuðu Núbíumenn kristnu konungsríkin þrjú Nobatia, Makuria og Alodia. Þau tvö síðastnefndu stóðu til um 1500. Milli 14. og 15. aldar lögðu arabískir hirðingjar undir sig megnið af Súdan. Frá 16. til 19. aldar stóð soldánsdæmið Sennar í suður- og austurhluta Súdans, meðan soldánsdæmið Darfúr réði vesturhlutanum og Tyrkjaveldi norðurhlutanum.

Frá 1820 til 1874 var allt Súdan á valdi ættar Múhameðs Alí sem ríkti yfir Egyptalandi. Milli 1881 og 1885 stóð uppreisn gegn harðræði egypsku stjórnarinnar, leidd af madíanum Muhammad Ahmad. Uppreisnin leiddi til stofnunar kalífatsins Omdúrmans. Breska heimsveldið steypti þeirri stjórn af stóli 1898 og lagði Súdan undir bresku stjórnina í Egyptalandi.

Á 20. öld óx súdanskri þjóðernishyggju fiskur um hrygg og landið fékk heimastjórn árið 1953. Þann 1. janúar 1956 var sjálfstæði lýst yfir. Síðan þá hafa nokkrar óstöðugar borgaralegar stjórnir og herforingjastjórnir ríkt yfir Súdan. Landið tók upp sjaríalög 1983 í valdatíð Jaafar Nimeiry. Þetta varð til þess að auka á spennuna milli íslamska norðursins, þar sem stjórnin situr, og kristinna íbúa í suðrinu. Ólík tungumál, trúarbrögð og aðgangur að valdinu leiddu til borgarastyrjaldar milli stjórnarflokksins, Íslömsku þjóðfylkingarinnar, og uppreisnarhópa í suðurhlutanum, en stærstu samtök þeirra voru Þjóðfrelsisher Súdans. Átökin leiddu til klofnings og sjálfstæðis Suður-Súdans árið 2011. Frá 1989 til 2019 var Súdan með herforingjastjórn undir forsæti Omar al-Bashir, sem var sökuð um margvísleg mannréttindabrot, pyntingar, ofsóknir á hendur minnihlutahópum og þjóðarmorð, vegna stríðsins í Darfúr sem braust út árið 2003. Talið er að 3-400.000 hafi látið lífið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Uppreisn gegn stjórn Bashirs hófst 2018 og leiddi til þess að honum var steypt af stóli af hernum árið 2019.

Súdan er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Afríkusambandinu og Arababandalaginu, Samtökum um íslamska samvinnu og Samtökum hlutlausra ríkja. Landið er sambandsríki þar sem forsetinn er í senn þjóðhöfðingi, höfuð ríkisstjórnarinnar og yfirmaður heraflans. Lög landsins byggðust á sjaríalögum þar til eftir byltinguna 2019, en í september 2020 var fallist á að koma á aðskilnaði ríkis og trúarreglna. Samkvæmt spillingarvísitölu Transparency International er Súdan með spilltustu löndum heims.

Nafnið Súdan er upphaflega heiti á heimshlutanum sunnan Sahara, sem nær þvert yfir Afríku. Það kemur úr arabísku bilād as-sūdān (بلاد السودان) sem merkir „land hinna svörtu“.[1] Nafnið er þannig eitt af mörgum örnefnum í Afríku með sömu eða svipaða merkingu sem vísar til hörundslitar íbúanna. Upphaflega hafði orðið „súdanskur“ þannig neikvæða tengingu í Súdan. Súdanska þjóðernishyggju má rekja til 4. og 5. áratugar 20. aldar þegar ungir menntamenn tóku heitið upp.[2]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Súdan er í norðanverðri Afríku, með 853 km strandlengju við Rauðahaf.[3] Landið á landamæri að Egyptalandi, Eritreu, Eþíópíu, Suður-Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu, Tjad og Líbíu. Það er 1.886.068 ferkílómetrar að stærð og er þriðja stærsta land Afríku (á eftir Alsír og Austur-Kongó) og 16. stærsta land heims.

Súdan er á milli 8°S og 23°N. Landslag er að mestu flatt, með nokkrum fjallgörðum. Í vestri er askjan Deriba í Marrah-fjöllum, hæsti punktur landsins í 3.042 metra hæð. Í austri eru Rauðahafshæðir. [4]

Bláa Níl og Hvíta Níl mætast við Kartúm og mynda ána Níl, sem rennur um Egyptaland í átt til Miðjarðarhafs. Bláa Níl rennur um 800 km gegnum Súdan og í hana renna árnar Dinder og Rahad milli Sennar og Kartúm. Engar stórar þverár renna í Hvítu Níl í Súdan. Nokkrar stíflur eru í Bláu og Hvítu Níl, þar á meðal Sennarstíflan og Roseires-stíflan í Bláu Níl, og Jebel Aulia-stíflan í Hvítu Níl. Við Asvanstífluna í norðurhluta landsins er uppistöðulónið sem heitir Nasservatn í Egyptalandi, en Núbíuvatn í Súdan.

Súdan er auðugt af náttúruauðlindum í jörðu. Þar má finna asbest, krómít, kóbalt, kopar, gull, granít, gifs, járn, kaólín, blý, mangan, glimmer, jarðgas, nikkel, jarðolíu, silfur, tin, úran og sink.[5]

Veðurfarsbelti í Súdan.

Í Súdan er eyðimerkurloftslag ríkjandi, en úrkoma vex eftir því sem sunnar dregur í landinu. Mið- og norðurhlutinn eru mjög þurrir og heitir. Þar eru eyðimerkur eins og Núbíueyðimörkin í norðaustri, og Bayuda-eyðimörkin í austri. Í suðrinu er hitabeltisgresja. Regntíminn í Súdan varir í um fjóra mánuði, frá júní til september, í norðrinu, en allt að sex mánuði, frá maí fram í október, í suðrinu.

Í þurrkahéruðunum eru sandstormar algengir. Þeir eru þekktir sem habúb og hylja sólina með öllu. Í norður- og vesturhlutanum treystir fólk algerlega á úrkomuna og margir ættbálkar eru hirðingjar sem ferðast með hjarðir af kindum og kameldýrum. Nær Níl eru búgarðar með áveitum sem rækta landbúnaðarvörur fyrir markaði. [6] Sólartími er mjög mikill í öllu landinu, en mestur í eyðimerkurhéruðunum þar sem hann getur náð yfir 4.000 stundum á ári.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Súdan er skipt í 18 fylki (wilayat, et. wilayah). Þau skiptast svo í 133 umdæmi.

  Mið- og norðurfylki
  Abyei

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. International Association for the History of Religions (1959), Numen, Leiden: EJ Brill, bls. 131, „West Africa may be taken as the country stretching from Senegal in the West, to the Cameroons in the East; sometimes it has been called the central and western Sudan, the Bilad as-Sūdan, 'Land of the Blacks', of the Arabs“
  2. Sharkey, Heather J. (2007). "Arab Identity and Ideology in Sudan: The Politics of Language, Ethnicity and Race" (PDF Geymt 12 október 2020 í Wayback Machine). African Affairs. 107 (426): 21–43. doi:10.1093/afraf/adm068.
  3. „Sudan geography“. Institute for Security Studies. 12. janúar 2005. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. maí 2011.
  4. „Sudan“. Country Studies. n.d. Sótt 26. júní 2010.
  5. „Geography of Sudan“. Sudan Embassy in London. n.d. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. september 2005.
  6. „Sudan – Geography & Environment“. Oxfam GB. n.d. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. október 2012. Sótt 13. janúar 2011.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.