Guðmundur Georgsson
Guðmundur Georgsson (11. janúar 1932 – 13. júní 2010) var íslenskur læknir, vísindamaður, friðarsinni og knattspyrnumaður.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Guðmundur fæddist í Reykjavík og ólst þar upp. Hann iðkaði ýmsar íþróttir á yngri árum, s.s. handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu. Varð hann Íslandsmeistari með KR í síðastnefndu íþróttinni árin 1952 og 1955, sem markvörður. Þá var hann í hópi stofnenda Körfuknattleiksfélagsins Gosa.
Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1952 og prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1960. Árið 1966 lauk hann doktorsprófi frá háskólanum í Bonn og fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í meinafræði ári síðar. Eftir námsdvölina í Vestur-Þýskalandi hóf hann störf við Tilraunastöðina á Keldum og var um skeið forstöðumaður hennar. Árið 1994 var hann skipaður prófessor við Læknadeild HÍ og gegndi þeirri stöðu uns hann lét af störfum árið 2001.
Guðmundur var virkur í friðarmálum og átti sæti í miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga og var um tíma formaður hennar. Árið 1985 fór hann sem fulltrúi SHA til Hírosíma í Japan, í boði þarlendra friðarsamtaka. Í kjölfarið var í fyrsta sinn efnt til kertafleytingar á Reykjavíkurtjörn til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírosíma og Nagasakí.
Auk vísindarannsókna sinna þýddi Guðmundur smásögur eftir þýska rithöfuninn Heinrich Böll.