iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.
iBet uBet web content aggregator. Adding the entire web to your favor.



Link to original content: http://is.wikipedia.org/wiki/Erlendur_biskup
Erlendur biskup - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Erlendur biskup

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stytta af Erlendi biskupi á vesturgafli Niðarósdómkirkju.

Erlendur biskup (d. 13. júní 1308) var biskup í Kirkjubæ, Færeyjum 1269 – 1308.

Erlendur biskup hefur líklega verið fæddur um 1240, ekki vitað hvers son hann var. Hann var fyrst kórsbróðir í Björgvin, en var vígður Færeyjabiskup í janúar 1269. Hann var mikilhæfur maður og hafði umtalsverð áhrif í kirkjumálum og stjórnmálum, bæði í Færeyjum og Noregi. Hann var t.d. einn sjö biskupa sem voru viðstaddir krýningu Eiríks Magnússonar Noregskonungs í Björgvin 25. júlí 1280.

Erlendur bjó í Kirkjubæ í Færeyjum og lét m.a. byggja Magnúsarkirkjuna eða Múrinn þar. Árið 1298 átti hann, ásamt Sigurði lögmanni í Færeyjum og á Hjaltlandi, frumkvæði að því að Sauðabréfið var samið, en það er réttarbót fyrir Færeyjar, sem Hákon háleggur hertogi staðfesti. Sauðabréfið er elsta skjal sem varðveitt er úr Færeyjum.

Hugsanlegt er að Erlendur hafi verið viðstaddur krýningu Hákonar háleggs Noregskonungs í Niðarósdómkirkju 1. nóvember 1299, en engar heimildir eru til um það. Þann 5. desember 1305 tók Erlendur þátt í því að vígja Árna Sigurðsson biskup í Björgvin. Þar var Hákon háleggur einnig viðstaddur. Stöðu Erlends má einnig sjá af því að nafn hans kemur fyrir í skjölum hátt settra samtímamanna hans. T.d. er hann meðal 16 kirkjuhöfðingja sem undirrita skjal, 10. desember 1305, þar sem Hákon háleggur gefur konu sinni, Eufemiu frá Rügen, Bygdøy við Osló.

Seinna versnaði samband Erlends við Hákon konung, þegar upp komu þungar ásakanir á hendur honum. Einkum var Erlendi gefið að sök að vilja ráða öllu í Færeyjum og sölsa undir kirkjuna allar jarðeignir þar. Margt bendir til að kaþólska kirkjan hafi aldrei náð undir sig eins miklu landi og völdum í Færeyjum eins og á dögum Erlends biskups.

Þjóðsagan segir að Erlendur hafi fallið í bardaga í dómkirkjunni í Kirkjubæ, í eins konar borgarastríði milli norður- og suðurhluta eyjanna. Mun sennilegra er þó að hann hafi flúið til Noregs vegna vaxandi ólgu meðal íbúanna, sem sættu sig ekki við óhóflega græðgi og fjárkröfur af hálfu kirkjunnar.

Í bréfi sem Árni biskup í Björgvin skrifaði 22. júní 1308 til biskupanna á Íslandi og Grænlandi, kemur fram að Erlendur hafi dáið 13. júní 1308, líklega í Björgvin. Það liðu 4 eða 5 ár þar til eftirmaður hans var skipaður, því að Árni biskup í Björgvin og Jörundur erkibiskup í Niðarósi gátu ekki komið sér saman um hver skyldi taka við. Að lokum hafði Jörundur erkibiskup (og Hákon konungur) sitt fram, með milligöngu Nikulásar erkibiskups í Uppsölum, og varð Loðinn frá Borgundi biskup í Færeyjum.

Hugsanlegt er að Erlendur sé grafinn í Kirkjubæ. Árið 1420 lét Jón þýski biskup í Færeyjum, taka upp bein Erlends, því að vísbendingar voru um að hann væri heilagur maður. Hefur hann síðan af mörgum verið talinn meðal norrænna dýrlinga.

Á vesturgafli dómkirkjunnar í Niðarósi er stytta af Erlendi biskupi, en hún er ekki gömul.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Erland von den Färöern“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 1. júní 2009.
  • Jakob Jakobsen: Biskop Erlend af Kirkebø. Greinir og ritgerðir, Tórshavn 1957, 60–71.
  • G. V. C. Young: Færøerne: Fra vikingetiden til reformationen, Kbh. 1982.
  • J. F. West: Erlendr Bishop of the Faroe Islands. Í: Byron J. Nordstrom (ritstj.): Dictionary of Scandinavian History, Westport, Connecticut (Greenwood Press), 1986, 175-176